138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kristallast sá munur sem er á pólitískri lífssýn minni og hv. þingmanns vegna þess að hann er til í að fara upp í ræðustól og leggjast í víking til að verja það að það geti verið valkostur að lögin frá árinu 2006 taki gildi. Það er ég hins vegar ekki tilbúin að gera og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram til að tryggja að þau taki aldrei gildi. Það er þannig, virðulegi forseti, eins og áður hefur verið nefnt, að ég og hv. þingmaður höfum ekki deilt skoðunum í þeim efnum og um það tökumst við á hér. Hv. þingmaður lítur á það sem valkost að lögin frá 2006 þar sem kveðið er á um hreinan einkaeignarrétt á vatni sem fylgir landi, eins og þar er kveðið á um í neikvæðri skilgreiningu, og hv. þingmaður er tilbúinn að leggjast í víking til að verja þá afstöðu sína og ég virði það. En þá bið ég hv. þingmann líka um að taka þá umræðu í þinginu og fara í þá umræðu með okkur hinum sem viljum ekki að þessi lög taki gildi og þess vegna er það lagt fram að þau lög verði einfaldlega felld brott og menn byrji umræðuna með hreinu borði. Ég tel að lögin frá árinu 2006 verði aldrei valkostur.

Virðulegi forseti. Það er von mín að þegar löggjöfin sem við erum að vanda mjög til kemur fyrir þingið verði hún grundvöllur skoðanaskipta um þennan mikilvæga málaflokk. Ég minni á að það tók sjö ár að smíða þá vönduðu löggjöf sem staðið hefur frá 1923 til þessa dags og um þetta urðu miklar umræður þá og verða það án efa í þetta sinn. En ég held að ef lögin frá 2006 hanga enn yfir okkur munum við aldrei ná árangri eða nálgast nokkurn tíma einhverja niðurstöðu sem felur í sér sátt.