138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun sem gilda á til ársloka 2013 en hún er lögð fram í samræmi við 7. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra leggur fyrir Alþingi, skv. 7. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.“

Þá segir að í byggðaáætlun skuli gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu en síðari hluti þingskjalsins fjallar um þau mál. Tillagan er að stofni til unnin af Byggðastofnun en náið samráð var haft við sveitarfélög og samtök þeirra, atvinnuþróunarfélög og fleiri, m.a. með kynningarfundum um allt land og opnu samráði. Byggðaáætlun tekur að þessu sinni sérstakt mið af því að nú er unnið að gerð sóknaráætlunar 20/20 fyrir alla landshluta. Byggðaáætlun verður innlegg í þá umræðu og hluti af heildarsamræmingu opinberra áætlana og aðgerða sem stuðlað geta að eflingu samkeppnishæfni einstakra svæða á Íslandi og landsins í heild. Byggðaáætlun nú grundvallast því fyrst og fremst á aðgerðum sem tengjast nýsköpun og atvinnuþróun og er framlag til þeirrar vinnu sem nú fer fram um sóknaráætlunina 20/20 þar sem unnið er í opnu ferli, m.a. með þjóðfundum í landshlutum, í nánu samstarfi við atvinnuþróunarfélög og sveitarstjórnarmenn þar sem hundruð manna koma að þeirri vinnu að ráðast í gerð sóknaráætlunar fyrir alla landshluta og samræmingu áætlana.

Virðulegi forseti. Byggðaáætlun hefur nú tekið þó nokkrum breytingum og er að verða hluti af þessari miklu, stóru og mikilvægu stefnumótun. Meginmarkmið byggðaáætlunar eru að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum, efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja með margvíslegum aðgerðum. Í þeim tilgangi að ná markmiðum byggðaáætlunar eru skilgreind að þessu sinni sjö lykilsvið og aðgerðir undir hverju og einu þeirra. Gerð er grein fyrir 31 aðgerð sem verður felld saman við aðra stefnumótun, t.d. á sviði menntamála, vísinda og tækni, nýtingar orkulinda, umhverfismála, samgöngu- og fjarskiptamála, ferðamála, landsskipulagsmála og fleiri sviða. Lykilsvið áætlunarinnar eru í fyrsta lagi almenn atvinnustefna þar sem megináherslan er á bætta samkeppnishæfni, nýsköpun og sjálfbæra þróun atvinnulífsins þar sem byggt er á sérstöðu og styrkleika hvers svæðis eða hverrar atvinnugreinar fyrir sig, menntun, rannsóknum og margvíslegum menningar- og samfélagslegum þáttum.

Í öðru lagi er um að ræða samsetningu opinberra áætlana sem kallar á víðtækt samráð til að ná bættum árangri í þágu atvinnulífs og búsetuskilyrða auk betri nýtingar fjármagns.

Í þriðja lagi er lögð áhersla á eflingu stórteymis atvinnulífsins en einfalda þarf margbrotið stoðkerfi atvinnulífsins og auka skilvirkni þess.

Í fjórða lagi er sérstök áhersla á nýsköpun og sprotafyrirtæki en stuðningur við helstu vaxtarbrodda atvinnulífsins er nauðsynlegur, t.d. í gegnum menntakerfi og stoðkerfi atvinnulífsins, en einnig með skattalegum ívilnunum vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar.

Í fimmta lagi er áhersla á erlendar nýfjárfestingar sem eru mikilvægar fyrir uppbyggingarstarf á landsbyggðinni. Fyrr í dag var rætt frumvarp til rammalöggjafar um ívilnanir sem nú liggur fyrir og er komið til meðferðar í iðnaðarnefnd. Í því er stefnan að ívilnanir séu metnar kerfisbundið út frá heildarhagsmunum þjóðarbúsins og að sértækum ívilnunum verði hætt.

Í sjötta lagi er efling ferðaþjónustunnar þar sem byggt verður á þeim styrkleikum sem til staðar eru og þeir markaðssettir sérstaklega fyrir erlenda ferðamenn um leið og frekari vöruþróun er sinnt og gæði þjónustunnar höfð að leiðarljósi. Sem dæmi um öfluga vöruþróun sem á sér nú stað má nefna á sviði heilsu- og lífsstílstengdrar ferðaþjónustu og þar hefur iðnaðarráðuneytið gert samkomulag við samtök nýstofnuð á því sviði, þ.e. fyrirtækja á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu, og er nú unnið að öflugri vöruþróun á því sviði. Ástæðan er auðvitað sú að ferðaþjónustan er sístækkandi atvinnuvegur á landsbyggðinni. Þá vil ég nefna að á meira og minna öllum þjóðfundum sem haldnir voru í landshlutunum var ferðaþjónustan efst á blaði yfir sóknarfæri landshlutanna. Þess vegna skiptir þessi vöruþróun máli. Hún skiptir líka máli í því sambandi að tengja menn saman undir einu öflugu merki og þá er einfaldara að sækja fram á nýja markaði. Þetta er gert líka í því skyni að efla ferðaþjónustuna sem heilsársatvinnugrein.

Einnig er kveðið á um að ráðast þurfi í rannsóknir á sviði ferðaþjónustu og hvernig það skuli gert. Sömuleiðis er kveðið á um að ráðast þurfi í gerð og undirbúning landnýtingaráætlunar og að fjölga veigamiklum ferðamannastöðum.

Í sjöunda lagi er nefnt að félagsauður hvers samfélags, eins og menntun, menning, lýðræðisleg þátttaka og jöfn staða og þátttaka kynjanna, sé innri styrkur þess til hvers konar verkefna og hafi því afgerandi áhrif á vöxt og viðgang samfélagsins. Þessum sjö lykilsviðum er síðan fylgt eftir með tillögum um beinar aðgerðir sem ástæðulaust er að telja upp hér.

Virðulegi forseti. Ég verð að draga það fram að kjarninn hvað fjármagn varðar í byggðaáætlun að þessu sinni er í vaxtarsamningunum. Þeir hafa reynst alveg ótrúlega vel og hafa skilað okkur innri vexti í samfélögunum úti um landið. En vaxtarsamningarnir hafa frá og með síðustu áramótum verið gerðir við öll atvinnuþróunarsvæðin átta sem skilgreind hafa verið í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Hið allra nýjasta er á Suðurnesjum og þá erum við búin að loka hringnum.

Markmið þeirra er að efla nýsköpun og atvinnuþróun og þar af leiðandi samkeppnishæfni einstakra landsvæða. Í vaxtarsamningum er ábyrgð og framkvæmd færð til íbúanna og á vegum þeirra verður unnið að ýmsum nýjum og árangursríkum verkefnum. Lögð er áhersla á samstarfsverkefni sem komið er á fót í misstórum klösum fyrirtækja þar sem framlegðar er að vænta. Árangur af þessari starfsemi hefur verið gríðarlega mikill og góður og því er aðstaða að okkar mati til að efla vaxtarsamningana og byggja enn frekar á þeim og færa þannig stjórnina á fjármunum sem fara til byggðamála heim í hérað. Það er gaman að segja frá því að vaxtarsamningamódelið hefur gefist það vel að menn hafa notað það til fyrirmyndar til að styðja við klasamyndun í ákveðnum atvinnugreinum svo dæmi sé tekið.

Virðulegi forseti. Við verðum að horfa til þess, eins og ég nefndi í upphafi, að byggðaáætlun er að þessu sinni hugsuð sem nýsköpunar- og atvinnuþróunarhluti inn í sóknaráætlun 20/20 og þá öflugu vinnu sem þar á sér stað. Þar er verið að móta heildstæða stefnu á sviði atvinnumála og ég ber miklar væntingar til þess, enda koma hundruð manna að því starfi. Ég tel, svo að skoðun mín komi fram, að það sem hamlaði því að byggðaáætlun varð ekki að því sem menn ætluðu henni upphaflega hafi verið rammar ráðuneytanna. Þeir hafi komið í veg fyrir að þetta hafi gengið eins og til var ætlast vegna þess hversu stífir þeir eru. Ég geri ráð fyrir því að í sóknaráætlun 20/20 og þeirri vinnu sem þar fer fram muni menn finna stjórnkerfi sem vinnur betur. Ég veit að unnið er að því og það er markmið sóknaráætlunar 20/20 að vinna betur þvert á ráðuneyti og stofnanir þannig að þessi heildstæða áætlanagerð gangi upp.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til iðnaðarnefndar þingsins til frekari umfjöllunar sem og skýrslunni sem ég hef ekki tíma til að fara yfir en fylgir með í greinargerð.