138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar en spurningin er samt eiginlega enn þá í loftinu: Hvað er nýtt? Nú er verið að veita fjármuni inn í vaxtarsamningana, við þekkjum það, það hefur gefið góða raun og er fínt mál. Það er verið að útdeila fjármunum af hálfu iðnaðarráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins en hvað kemur nýtt inn með þessu? Er bara verið að taka nokkra þætti sem er þegar búið að vinna í sitt hvoru ráðuneytinu og leggja þetta saman í eitt skjal með svona einhverju „fifferíi“ eða er eitthvað nýtt í þessu? Ég átta mig alveg á því að þegar þetta er komið í eitt skjal er meiri yfirsýn og allt í lagi með það. En hvað er nákvæmlega nýtt í þessu hvað varðar fjármagnið, hvað af þessu eru nýir peningar? Hverju er verið að bæta inn í það sem þegar er verið að veita inn í vaxtarsamningana og þá styrki sem verið er að úthluta af hálfu ráðuneytanna og eru þá væntanlega að falla niður? Þetta er ekki allt nýtt.

Ef við tökum bara aftur dæmið með Skaftárhrepp, sem er svæði sem á undir högg að sækja vegna fólksfækkunar og færri atvinnutækifæra, hvað gætu íbúar í Skaftárhreppi sagt að breyttist hjá þeim við það að við mundum t.d. samþykkja þessa þingsályktunartillögu í þinginu?