138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir erum greinilega þingmenn úr sama flokki í sama kjördæmi vegna þess að við hugsum þetta á svipuðum nótum. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að ég er svona á sömu slóðum að mér finnst þetta vera, eins og núverandi ríkisstjórn er dálítið þekkt fyrir, að gera áætlanir um áætlanir. Í 2. lykilsviði, sem skilgreind eru, stendur einmitt „samþætting áætlana“. Þetta er dálítið mikið þannig tal.

Mig langaði að spyrja um atvinnuuppbygginguna sem stendur til samkvæmt þessu, væntanlega, vegna þess að ef ég ætti að gefa ríkisstjórninni eitthvert ráð í byggðamálum er það mjög einfalt: Leyfið fólkinu að byggja upp á sínum svæðum. Hættið við fyrningarleið í sjávarútvegi þannig að atvinnulíf, úti á landsbyggðinni sérstaklega, fái þrifist og fái að dafna. Leyfið sjálfsprottnum hugmyndum heimamanna að komast í framkvæmd án þess að bregða fyrir þá fæti, hvort sem það varðar virkjanir í Neðri-Þjórsá eða samninga um gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ. Og kannski, þó að það sé svolítið á ská, mundi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra einmitt um það mál vegna þess að ef við erum að tala um byggðaþróun, ef við erum að tala um að fólk hafi tækifæri til að búa á þeim stöðum vítt og breitt úti um landið sem það kýs, er það fyrst og síðast atvinna sem það fólk vantar. Ef fólk hefur atvinnu getur það bjargað sér sjálft. Þá bjarga samfélögin sér sjálf, þá fá þau skatttekjur sem þau geta notað til að tryggja þjónustu sem aftur verður til þess að fólk vilji búa á svæðunum. (Forseti hringir.)

Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um gagnaversmálið og fjárfestingarsamninginn, hvar það stendur, og svo um (Forseti hringir.) atvinnuuppbyggingarhliðina í þeim samningi, hver er hún?