138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:00]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður, byggðastefna sem þarna birtist finnst mér algjörlega glimrandi hugmynd eins og mér finnst íþróttabærinn Akureyri. Það felur ekki í sér eitthvað útópískt, ekki mikla fjármuni frá ríkissjóði, heldur felur það í sér að fólk, hugsanlega ferðaþjónustuaðilar, sá þarna tækifæri til að koma saman í klasa og búa til sterka mynd af Akureyri sem skíðabæ, heilsubæ eða útivistarbæ. Í því eru fjölmörg tækifæri. Ég bið menn sem standa í pontu að gera ekki lítið úr þessum hugmyndum því að í byggðamálum hefur lengi verið lögð áhersla á klasamyndun.

Það var margt gott gert í tíð fyrrum ríkisstjórna og eitt af því voru vaxtarsamningarnir. Þar eru klasar algjört lykilorð. Verkefnin sem koma frá þessum þjóðfundum eru akkúrat svona klasaverkefni. Það er alveg gríðarlega merkileg vinna sem þarna á sér stað því að þaðan kemur frumkvæði frá heimamönnum um samstarf til að ná ákveðnum árangri. Þó að hv. þingmanni líki ekki hvernig sveitungar hans raða niður verður bara svo að vera, það eru ekki allir alltaf sammála.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að stjórnvöld fari ofan af sínum háa hesti og færi valdið til að móta stefnu og samfélagið í hendurnar á heimamönnum, það er sú vinna sem við erum í núna. Ef hv. þingmaður kallar það ekki byggðastefnu eða stefnumörkun erum við ósammála vegna þess að hann virðist aðhyllast það að deila og drottna (Forseti hringir.) úr hásæti, þ.e. að stjórnvöld deili út peningum úr hásæti sínu. Það gerum við ekki við viljum færa þessa ákvarðanatöku til heimamanna.