138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:05]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að taka þátt í umræðunni um stefnumótandi byggðaáætlun sem iðnaðarráðherra talaði fyrir fyrr í kvöld. Ég held reyndar að það sé mjög mikill styrkur í því að þau mál sem hún hefur talað fyrir í dag, þ.e. frumvarp til laga um ívilnanir á landsbyggðinni og svo frumvarp til raforkulaga, skuli koma fram á sama tíma vegna þess að þau standa saman.

Ég held að þetta geti verið í síðasta sinn sem byggðaáætlun er sett fram í þessu formi eins og hún er sett fram núna og ef allt fer að óskum og sóknaráætlun fyrir Ísland verður lögð fram á haustþingi, eins og til stendur, munum við nálgast viðfangsefnið svæðaþróun með öðrum hætti en við höfum gert hingað til.

Byggðaáætlunin eða tillaga til þingsályktunar um byggðaáætlun og skýrslan sem henni fylgir gefur mjög gott yfirlit yfir stöðu byggðaþróunar og þar kemur mjög margt fróðlegt í ljós. Ítarlegri fróðleik um einstök landsvæði má líka finna í stöðuskýrslum sóknarsvæða sem teknar voru saman fyrir þjóðfundi í landshlutum og iðnaðarráðherra minntist nokkrum sinnum á. Þessa stöðuskýrslu má finna á vefnum island.is og þar geta þingmenn sótt sér mikinn fróðleik um það sem er að gerast í verkefnum sóknaráætlunar fyrir Ísland.

Það sem mér finnst líka mjög fróðlegt er að fá yfirlit yfir byggðamál í nágrannalöndunum og tímabært að við setjum áherslur og hugmyndir um byggðamál á Íslandi í samhengi við það sem gerist þar.

Eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á skiptist byggðaáætlun í sjö lykilsvið. Ég ætla ekki að rekja það allt saman en ég vek athygli á fyrsta sviði, svokallaðri atvinnustefnu, þar sem settar eru fram hugmyndir um samkeppnishæfni, nýsköpun o.fl. Ég geri ráð fyrir að þessar hugmyndir komi til umfjöllunar í iðnaðarnefnd og vil við þetta bæta að stýrihópur á vegum sóknaráætlunar er líka að vinna að hugmyndum um atvinnuþróun eða atvinnustefnu og saman held ég að þessar tvær áætlanir muni fléttast mjög vel saman í því sem heitir atvinnustefna.

Hæstv. iðnaðarráðherra talar mikið um samþættingu áætlana hins opinbera sem ég tel mjög mikilvægan lið í að stilla saman grunngerð og sóknarfæri um allt land. Þannig munum við t.d. í framtíðinni, ef allt fer að óskum, flétta saman þær tvær áætlanir sem lagðar eru fram á Alþingi í þessari viku, þ.e. byggðaáætlun og samgönguáætlun, svo nokkrar séu nefndar. Aðrar áætlanir munu að sjálfsögðu koma inn í sóknaráætlun.

Fyrirmyndin að þessum vinnubrögðum er sótt til Írlands en Írum hefur tekist einkar vel upp við þetta verkefni, þ.e. að setja fram heildstæðar áætlanir fyrir einstök svæði og landið allt. Það er rétt að undirstrika að á Írlandi er bein tenging á milli fjárlagagerðar og sóknaráætlunar írskra stjórnvalda.

Á þriðja lykilsviðinu er fjallað um eflingu stoðkerfis atvinnulífsins. Það er margoft búið að tala hér um ágæti vaxtarsamninga og þeir hafa fyrir löngu sannað ágæti sitt. Það eru auðvitað ýmsir aðrir samningar í gildi, svo sem menningarsamningar. Það er hins vegar mjög mikilvægt að stilla þetta kerfi saman og við getum lært mjög mikið af fyrirkomulagi annarra Evrópuþjóða í þeim efnum.

Það er mjög athyglisvert að sjá í fylgiskjali bls. 44–46 hve mikill munur er á úthlutun styrkja til einstakra landshluta. Þetta eru reyndar styrkir sem var úthlutað í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar árið 2008 og það er augljóst að sum svæði fengu langtum meira en önnur. Það kann að vera sú skýring á því að þau hafi þurft meira á því að halda en það sem vekur ekki síður athygli mína er það hversu miklu lægri og færri styrki konur fá en karlar. Það hversu lága styrki Suðurnesin fengu við þessar mótvægisaðgerðir kann að skýra hvers vegna þau náðu ekki að setja eggin í fleiri körfur og þannig er nú komið núna að atvinnuleysi er langmest þar á landinu.

Á bls. 55 er líka mjög athyglisverð mynd sem er gott að hafa til hliðsjónar þegar við hugsum um byggðaþróun í landinu. Þar kemur fram að fræðastofnanir og þekkingarsetur eru langfæst í Suðurkjördæmi. Í Suðurkjördæmi eru aðeins 98 stöðugildi á meðan stöðugildi fræðasetra í öðrum kjördæmum eru t.d. 129 í Norðvesturkjördæmi og 113 í Norðausturkjördæmi. Það þarf að huga að þessum málum þegar kemur að því að hrinda byggðaáætlun í framkvæmd.

Nýsköpun og sprotafyrirtæki er lykilsvið nr. 4 í byggðaáætlun og það er verkefni sem þarf að efla sérstaklega og er mikilvægt að leita út fyrir landsteinana í leit að hugmyndum og samstarfsaðilum. Ég vil í því sambandi nefna að Evrópusambandið, alveg sama hvað fólki finnst um Evrópusambandið, rekur mjög öfluga áætlun um samstarf þekkingarsetra og klasa í dreifðum byggðum. Þetta verkefni er til mikillar fyrirmyndar og mjög áhugavert fyrir íslensk fræðasetur svo ekki sé meira sagt. Ég veit reyndar að margar góðar hugmyndir og verkefni eru sprottin úr samstarfi íslenskra aðila og evrópskra svo sem sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaga. Frumvarp iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga er að sjálfsögðu mjög mikilvægt lóð á þessar vogarskálar.

Eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á bindur fólk um allt land mjög miklar vonir við ferðaþjónustuna sem lið í sóknaráætlunum einstakra landshluta. Ég vil að það komi fram og fólk átti sig á því að þjóðfundir í landshlutum voru fyrst og fremst ætlaðir til þess að leita að kjarnahæfni hvers svæðis, þ.e. það sem heitir á ensku „core competence“, og verður að horfa á verkefnið í því ljósi. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna en því til áréttingar er rétt að taka það fram að þarna þykir Akureyrarbær skara fram úr öðrum bæjum á landinu á þessu sviði því þetta er það sem kallað er kjarnahæfni svæðisins. Ég held að enginn bær á landinu taki það frá Akureyri og þess vegna er þetta dregið fram. Það útilokar ekki aðrar sterkar atvinnugreinar.

Ég veit líka að menn voru hugsi yfir niðurstöðunni á Vestfjörðum og það er óþarfi að fara í þá umræðu akkúrat núna en við getum alveg skoðað það. Við megum ekki missa sjónar á því að við vorum að leita að kjarnahæfni hvers svæðis.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi er mjög ánægjulegt að sjá þessi mál komin fram og það verður ánægjulegt að fylgjast með framvindu þeirra allra í þinginu. Það getur verið að byggðaáætlun í þessu formi verði barn síns tíma áður en langt um líður. Vonandi munum við tileinka okkur heildstæða hugsun um svæðaþróun þar sem landið allt liggur undir vegna þess að byggðamál í öllum Evrópuríkjum eða það sem heitir svæðaþróun, „regional development“, eru þróunarmál fyrir allt landið með mismunandi áherslur á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Við verðum að horfa á landið í heild þegar við horfum fram á veginn og út úr þessari kreppu vegna þess að landið lifir ekki án höfuðborgarsvæðis og höfuðborgin lifir ekki án landsbyggðar. Við verðum að hugsa okkar litla land í einu samhengi, við verðum að setja fram svæðaþróun fyrir allt landið og við verðum að samþætta áætlanir hins opinbera því að að öðrum kosti munum við spóla í sömu hjólförum um ókomna framtíð.