138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín mjög skýrum spurningum. Hann spurði mig fyrst hver stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart Byggðastofnun væri. Sú stefna kom skýrt fram þegar ákveðið var að styrkja Byggðastofnun með framlagi upp á 3,6 milljarða kr. til að styrkja lánasviðið, til þess að Byggðastofnun gæti haldið áfram að vera gerandi í lánveitingum á landsbyggðinni. Það var skýr stefnumörkun, virðulegi forseti. Með því sendum við skýr skilaboð um að við ætlum Byggðastofnun að halda áfram á þeirri braut sem verið hefur varðandi lánveitingar til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

Hv. þingmaður gæti kannski sagt mér á eftir þegar hann kemur upp í andsvar hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að hann hafi einmitt setið í ríkisstjórninni sem ætlaði að leggja Byggðastofnun niður með því að sameina hana Nýsköpunarmiðstöð Íslands með einu pennastriki. Hann getur kannski rifjað það upp með mér hér. Það var akkúrat þannig, það var stefnumörkunin sem birtist í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þetta er allt til í þingskjölum, virðulegi forseti. Það var sem betur fer komið í veg fyrir það. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.

Varðandi atvinnuþróunarfélögin ætlum við þeim mikið hlutverk. Það tengist vaxtarsamningunum sem þau koma að. Það er alveg klárt að atvinnuþróunarfélögin munu gegna lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Jafnframt eru, svo ég nefni dæmi, atvinnuþróunarfélögin að víkka töluvert út hlutverk sitt og við ætlum þeim orðið meira og meira hlutverk. Ég nefni Þingeyjarsýslurnar þar sem atvinnuþróunarfélagið er í verkefnisstjórninni sem er samstarfsvettvangur ríkisins, sveitarfélaganna og atvinnuþróunarfélagsins á svæðinu um myndarlega atvinnuuppbyggingu byggða á orkunni sem er að finna á norðaustursvæðinu.

Atvinnuþróunarfélögunum er ætlað mikið hlutverk í stefnu okkar.