138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um það sem hæstv. ráðherra fimbulfambaði um, að ég hefði setið í ríkisstjórn sem ætlaði að leggja Byggðastofnun niður. Ég sat í ríkisstjórn á árunum 2005–2009 og hvorug þeirra ríkisstjórna ætlaði að leggja Byggðastofnun niður. Báðar þessar ríkisstjórnir sýndu í verki að þær vildu efla stofnunina, gerðu það bæði með fjármunum og því að gera henni kleift að fá heimildir til að auka lánveitingar sínar. Við gerðum okkur svo vel grein fyrir því að Byggðastofnun skipti mjög miklu máli.

Það var hins vegar rétt að þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hafði uppi hugmyndir um að sameina Byggðastofnun Nýsköpunarmiðstöð, hygg ég að það hafi verið og einhverjar fleiri stofnanir. Við vorum allmargir þingmenn úr báðum þeim stjórnarflokkum sem snerumst öndverðir gegn þeirri hugmynd og sem betur fer tókst okkur að hrinda henni af höndum okkar. Byggðastofnun á nefnilega að starfa sem byggðastofnun og það er alveg ljóst mál að ef menn ætla sér að leggja hana niður eða sameina hana undir einhverja aðra stofnun munu byggðaáherslurnar veikjast. Þess vegna er svo mikilvægt að stofnunin haldi áfram. Ég fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hún vilji efla hlut Byggðastofnunar. Ég tók eftir því að ríkisstjórnin létti skuldum af Byggðastofnun og taldi það merki um að ríkisstjórnin vildi halda áfram lánastarfsemi af hálfu Byggðastofnunar. Og ég tek undir það.

Sama er að segja um atvinnuþróunarfélögin, ég fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra skuli þá fylgja eftir þeirri gömlu stefnumótun okkar sem sátum þá í stjórn Byggðastofnunar að efla atvinnuþróunarfélögin vegna þess að þau eru einmitt liður í því að færa valdið heim til héraðsins. Við sjáum að það er hægt að vinna hlutina á forsendum heimamanna.

Auðvitað gera atvinnuþróunarfélög ekki kraftaverk. Þau eru með takmörkuð fjárráð. En þar er aðgangur að mikilli sérfræðilegri þekkingu. Ég þekki fjölmörg dæmi um að menn sem hafa reynt að hrinda úr vör nýjum hugmyndum í atvinnumálum hafa leitað til atvinnuþróunarfélaganna, fengið þar ágætisráðgjöf og getað þá tekið ákvörðun um hvort halda skyldi áfram eða hverfa (Forseti hringir.) frá þeim hugmyndum sem þeir höfðu uppi um mögulega atvinnulega uppbyggingu.