138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög skemmtileg umræða. En ég held að það væri bara mjög skýrt að setja þessi sjónarmið, sem við erum sammála um að séu góð, inn í byggðaáætlun. Mig langar að vekja enn og aftur athygli á því að samkvæmt þeim lögum sem þessi tillaga til þingsályktunar byggir á ber iðnaðarráðherra að leggja fram slíka áætlun. Ég sé ekki alveg að það plagg sem liggur hérna frammi uppfylli skilyrði lagaákvæðisins, ég skil ekki af hverju þetta er ekki bara í samræmi við lögin. Af hverju er ekki lýst markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sem gæti verið að efla samgöngur á hinum og þessum svæðum, sem væri þá búið að greina, með það að markmiði að byggðarlögin nái að blómstra og næðu betur fótfestu í atvinnulífinu?

Ég næ ekki af hverju þetta er svona flókið en það er kannski af því að ég er í Sjálfstæðisflokknum en hv. þingmaður í Samfylkingunni.