138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af þessum kvöldfundum, það verður svona aðeins galsi en það er líka gaman, það er allt í lagi að hafa gaman í vinnunni líka eða af þessum störfum.

Hér fjöllum við um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun. Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á þá umræðu sem hér hefur farið fram og andsvör ráðherra og fleiri velti ég því svolítið fyrir mér hvort er byggðaáætlunin, er það þetta plagg eða 20/20 áætlunin sem er einhvers staðar unnið að líka?

Það er svolítið ruglingslegt að leggja fram stefnumótandi byggðaáætlun þegar hún er svo sögð innlegg, fyrst og fremst innlegg í Sóknaráætlun 20/20. Ég velti því þá fyrir mér hvort þetta plagg, þetta mikla rit, sé einhvers konar samantekt fyrir þann hóp og þá sem vinna að 20/20 áætluninni. Ef svo er verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með það, því að hafi einhvern tíma verið mjög nauðsynlegt að koma fram með vel ígrundaðar beinar tillögur um byggðamál er það núna. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeim vanda sem er t.d. varðandi atvinnumál á höfuðborgarsvæðinu eða á suðvesturhorninu, ég er ekki að gera lítið úr því. Það þýðir samt ekki að hægt sé að halla sér aftur og hafa ekki áhyggjur af landsbyggðinni eða þeim svæðum sem byggðaáætlun á að taka til. Ég segi eins og margir aðrir hér: Hvert er hlutverk Byggðastofnunar, hvert á hlutverk þeirrar ágætu stofnunar að vera í framtíðinni? Ég held að nú þurfi og hafi þurft fyrir löngu að taka af skarið og skilgreina hlutverk Byggðastofnunar til framtíðar, þannig að sú ágæta stofnun þurfi ekki að velkjast í vafa um tilverurétt sinn, hvað hún á að gera, til hvers er ætlast. Að sjálfsögðu eru það fyrst og fremst stjórnvöld sem bera ábyrgð á sínum stofnunum, þær þurfa að vera í ramma sem er skýr og ákveðinn og nokkuð öruggur til lengri tíma til að hægt sé að vinna að eðlilegum framgangi mála.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra varðandi vaxtarsamningana. Ég held að það sé afar gott og góð yfirlýsing sem kemur hér fram að halda eigi áfram að vinna með vaxtarsamningana og styrkja þá. Hins vegar velti ég fyrir mér hvernig á að fara með þá fjármuni sem standa þarna umfram, 100 milljónir eða hvað það var, hvernig þeim verður úthlutað og í hvernig verkefni. Unnið er að mjög mörgum verkefnum utan vaxtarsamninganna í dag, sem ríkisvaldið kemur að, sem sveitarfélögin, einkaaðilar og margir aðrir koma að og mörg af þeim verkefnum byggja á stuðningi ríkisvaldsins, því verður ekki neitað.

Þessu tengt eru að sjálfsögðu opinberu störfin, opinberu störfin sem hafa orðið til á landsbyggðinni, sem sveitarstjórnarmenn, einstaklingar, hagsmunasamtök, atvinnuþróunarfélögin hafa barist við í fjölda ára að halda eða ná í út á landsbyggðina. Nýlega, ég held reyndar að það hafi bara verið í gær, var send til þingmanna Norðvesturkjördæmis yfirlit yfir þróun opinberra starfa á Norðurlandi vestra tekið saman af SSNV atvinnuþróun, eða Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar kemur fram, með leyfi forseta, ég ætla að fá að lesa þetta hér:

„Stjórn SSNV mótmælir harðlega fækkun starfa á vegum ríkisins á Norðurlandi vestra. Stjórnin minnir á að árið 2008 var gert sérstakt átak í fjölgun ríkisstarfa á Norðurlandi vestra og gerði það átak ráð fyrir fjölgun starfa um 25. Þau áform hafa að mestu gengið eftir en önnur störf hafa horfið í staðinn þannig að heildarfjölgun er 1,2 stöðugildi á milli áranna 2008 og 2009.“

Þetta er að sjálfsögðu það sem við horfumst í augu við að það er verið að gefa með annarri hendinni og taka með hinni. Verið er að fjölga opinberum störfum en þeim er að fækka annars staðar. Því miður er ég ekki með þær tölur fyrir framan mig núna en ég held, mig minnir það, ég ætla ekki að fullyrða það, að ef skoðuð er t.d. 15 ára þróun aftur í tímann hafi opinberum störfum á þessu svæði fækkað alveg gríðarlega mikið.

Þarna getur ríkisvaldið einmitt komið að málum með mjög kröftugum hætti, þ.e. að tryggja það að opinberum störfum fækki ekki. Það er áhyggjuefni að á þeim tímum sem við lifum í dag, aðhaldstímum sem eru eðlilegir í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í, fari sú barátta sem landsbyggðin hefur staðið fyrir árum saman út um gluggann í einu vetfangi. Það eru áhyggjur sem maður vissulega hefur.

Byggðaáætlun getur vitanlega komið þarna að góðum notum séu markmiðin skýr og ljós. Í þessari áætlun er talað um að þungamiðjan í stoðkerfi gegnum byggðaáætlun sé tvíþætt, annars vegar í gegnum vaxtarsamninga og hins vegar í gegnum uppbyggingu þekkingarsetra. Þetta er mjög jákvætt, það er jákvætt að horfa á vaxtarsamningana og þekkingarsetrin. En það er vitanlega miklu meira sem þarf til og meira sem þarf að vera þarna utan á og svona við fyrsta lestur, sem er kannski ekki mjög djúpur, kem ég í raun ekki auga á neinar beinar tillögur um það hvernig efla eigi byggð eða halda við byggð í landinu. Hér eru reifaðar ýmsar hugmyndir sem geta nýst en það er ekkert um það hvernig við ætlum að tryggja og efla byggð á Suðurlandi eða hvernig á að gera það á Norðurlandi eða eitthvað slíkt.

Ég hef lengi haldið það og vildi gjarnan nota tækifærið og koma á framfæri að lykilatriði í því er að hlusta á og veita heimamönnunum á hverju svæði meira vald og fleiri — ég ætla að fá að sletta, frú forseti — fleiri „rísorsa“ til að vinna málið heima fyrir.

(Forseti (ÁRJ): Úrræði.)

Úrræði, þakka þér fyrir, hæstv. forseti, ég biðst afsökunar á þessu, fleiri úrræði til að vinna að sínum málum, því að þar er þekkingin á aðstæðunum, hvað þar hugnast best og hefur gefist best. Ég get ekki séð það út úr þessari 20/20 vinnu að hún sé að skila því, því miður. Það á kannski eftir að gerast, ég ætla ekki að útiloka það en ég sé það ekki hér. Ég held reyndar að eitt helsta byggðamálið, a.m.k. sums staðar á landsbyggðinni, sé að skapa helstu atvinnugrein þjóðarinnar þokkalegan frið til hún geti vaxið og dafnað.

Á bls. 26 og 27 er tafla um íbúafjölda og fjallað um þróun íbúa. Hér kemur fram að á árunum 1. desember 2000 til 1. desember 2008 er alls staðar fækkun í þeirri skiptingu sem notuð er hér eftir kjördæmum eða þegar verið er að skipta landinu upp í svæði nema á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á Vestfjörðum fækkaði um 9,5% á þessu tímabili og á Norðurlandi vestra um 6,1%. Annars staðar varð fjölgun. Síðan veit ég að frá 2008 hafa þessar tölur vitanlega eitthvað breyst.

Þetta er sá raunveruleiki sem við búum við og höfum búið við mjög lengi og finnum áþreifanlega fyrir, við sem búum úti á landi og höfum starfað þar bæði í atvinnurekstri og eins í sveitarstjórnarmálum og öðru, það er þessi eilífa barátta við að halda fólkinu heima, að hafa eitthvað fyrir það að gera, að hafa stofnanir og hafa grunnþjónustuna í lagi. Þetta er eilíft stríð og eilíf barátta því að það munar um hvert einasta starf. Það munar um það, hæstv. forseti, eins og lesa mátti út úr frumvarpi sem flutt var um daginn, um framkvæmdarvald í héraði held ég að það hafi verið, það sem sneri að sýslumönnum. Ef t.d. þrjú störf hjá sýslumanninum á Hólmavík féllu niður væru það 14% opinberra starfa í því byggðarlagi. Þetta er hlutur sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Byggðaáætlunin er komin fram. Við getum haft ýmsar skoðanir á henni, frú forseti. Ég sakna þess að sjá ekki tillögur eða hugmyndir um hvernig við getum raunverulega eflt og stutt við landsbyggðina eins og þessari áætlun er ætlað að gera. Ég hef áhyggjur af því hvernig Byggðastofnun muni reiða af í framtíðinni. Henni þarf að marka umgjörð til framtíðar, skýra umgjörð, þannig að við þurfum ekki að lifa í einhverri óvissu með það tæki og það þarf (Forseti hringir.) að styrkja Byggðastofnun sem tæki í byggðamálum.