138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var eiginlega ekkert andsvar þannig að ég veit varla hvort ég á að svara þessu með einhverjum hætti, en þetta var góð upplýsingagjöf og þakka ég fyrir það.

Ég vil samt nota tækifærið til þess að minnast á eitt sem mun skipta miklu máli núna á næstu mánuðum og ekki síst í haust þegar næstu fjárlög verða afgreidd. Úti um allt land eru ýmis verkefni og þar af leiðandi mörg störf sem hanga á þeim og eru háð fjárveitingum á hverju ári. Þetta eru verkefni sem koma í gegnum t.d. átak vegna aflasamdráttar og ýmislegt annað. Þessi verkefni eru ekki föst í hendi. Þetta eru hugsanlega einhver hundruð stöðugildi, ef við förum yfir allt landið.

Það er gríðarlega mikilvægt að við tengjum þessi störf og þær fjárveitingar inn í umræðu um byggðaáætlanir, um byggðastyrki og um það hvernig við ætlum að efla og halda við byggð í landinu. Best væri ef hægt væri að tengja þetta með þeim hætti að hægt væri að festa þessi störf til framtíðar, til nokkurra ára, líkt og verið er að gera með vaxtarsamningunum og öðru slíku, því að þau tengjast óbeint, þau tengjast að sjálfsögðu innbyrðis við þau verkefni sem verið er að vinna m.a. í gegnum vaxtarsamningana.

Það væri mikilsvert ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um það hvort einhvers konar vangaveltur hafa verið um það eða einhver vinna hefur farið fram í ráðuneytinu varðandi þessar fjárveitingar fyrir næsta haust, þ.e. fyrir fjárlög 2011. Það er kannski of snemmt að spyrja að þessu núna (Forseti hringir.) því að mörg þessara verkefna eru bara á fjárlögum yfirstandandi árs. Ég (Forseti hringir.) hef fullan skilning á því ef sú vinna er ekki komin í gang.