138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í þessari umræðu var vitnað til danska sagnaskáldsins H.C. Andersens og spurt hvort keisarinn væri í fötum. Hæstv. iðnaðarráðherra hafði svör á reiðum höndum og fullyrti að þessi tillaga til þingsályktunar um byggðaáætlun væri svo sannarlega til marks um að keisarinn væri í fötum og hélt síðan mikla ræðu um þá nýbreytni sem fælist í tillögunni og væri allt öðruvísi en aðrar þingsályktunartillögur sem hefðu verið fluttar um byggðamál. Með öðrum orðum — hæstv. ráðherra sagði okkur að þetta væru þingsályktunartillögur sem mætti væntanlega kalla nýju fötin keisarans.

Ég held að það sé í raun og veru það sem við sjáum. Þetta er dálítið munaðarlaus tillaga. Það er nokkuð óljóst hvort hér sé um að ræða byggðaáætlun þar sem lagt er á ráðin um hvernig hægt sé að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni sérstaklega eða hvort við séum með einhvers konar samtíning af áhugaverðum hlutum án þess að um sé að ræða tæmandi upptalningu á sviði nýsköpunar sem gagnast getur landinu í heild. Þetta er kannski einn veikleikinn í ályktunartillögunni, það er ekki alveg ljóst þegar maður fer yfir einstök atriði tillögunnar hvort verið sé að ræða nýsköpunarhugmyndir almennt eða hvort við séum að ræða hluti sem beinlínis stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni.

Það eru fjölmörg atriði, eins og í tölulið 4, 5 og 17 í þeim upptalningum sem getur að líta í áætluninni, sem eru mjög áhugaverð fyrir landið í heild en það er ekki orð um að ætlunin sé með einhverjum aðgerðum að stuðla að því að þessi efnisatriði leiði til þess að uppbyggingin sem þar er nefnd verði sérstaklega á landsbyggðinni. Það er það sem gerir að verkum að þessi áætlun er, eins og ég sagði áðan, dálítið munaðarlaus, hún er stödd á pólitísku munaðarleysingjahæli. Það kann kannski að skýra athyglisverðar fjarvistir þingmanna Vinstri grænna frá þessari umræðu. Hér hafa að vísu tveir þingmenn flokksins verið staddir, hlustað á einhvern hluta umræðunnar en ekki einn einasti þingmaður VG hefur tekið þátt í henni. Einu sinni átti sá flokkur þingmenn sem sýndu lifandi áhuga á byggðaumræðunni. Einu sinni voru menn í þeim flokki sem létu sig ekki muna um að stíga upp í ræðustól til að tala máli byggðanna. Nú virðist það vera úr sögunni nema því aðeins að þingmenn VG telji það ekki einnar messu virði að ræða þessa áætlun, hún sé ekki raunveruleg byggðaáætlun.

Ég vil varpa einni spurningu fram. Við höfum á undanförnum árum reynt að stuðla að flutningi opinberra starfa út á land. Hér hefur verið rakið hvernig við náðum á vissan hátt árangri í þeim efnum en sá árangur er smám saman að verða að engu. Við lifum núna mjög viðsjárverða tíma. Við þurfum að skera niður útgjöld og máli skiptir að það sé ekki gert með því að draga úr atvinnusköpun á landsbyggðinni. Ég hefði t.d. viljað sjá í þessari áætlun mjög skýra stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar um að áfram skuli haldið á þeirri braut að færa verkefni út á land en ekki standa að því, eins og menn hafa gert á síðustu missirum, að fækka opinberum störfum. Nú er t.d. kallað eftir af hálfu ríkisstjórnarinnar að sameina stofnanir og hefur hæstv. forsætisráðherra boðað stórsókn í því. Við vitum hvað það þýðir. Það þýðir að þær litlu stofnanir sem við erum með á landsbyggðinni verða lagðar undir stærra apparat sem er í Reykjavík og mun þess vegna hafa neikvæða afleiðingar. Af hverju er engin skoðun á því í þessari áætlun? Hefur hæstv. byggðamálaráðherra ekki skoðun á þessu máli? Hefur ríkisstjórnin ekki skoðun á þessu máli? Af hverju birtist hún ekki í þessari áætlun?

Mikið er búið að tala um Sóknaráætlun 20/20. Hún er kannski góðra gjalda verð. Við eigum svo sem eftir að sjá framan í hana en það sem við höfum þó alla vega vitneskju um varðandi Sóknaráætlun 20/20 er í algjöru ósamræmi við ýmis þingmál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Hæstv. dómsmálaráðherra mælti á dögunum fyrir nýju frumvarpi varðandi lögregluumdæmi. Það frumvarp er í hróplegri mótsögn við hugmyndirnar um 20/20. Það er eins og ríkisstjórnin hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún er að vinna (Forseti hringir.) með einum hætti að málum varðandi 20/20 en leggur síðan fram frumvörp sem ganga í þveröfuga átt. Þetta er munaðarlaus (Forseti hringir.) tillaga sem annar stjórnarflokkurinn treystir sér ekki að tala fyrir.