138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:44]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á að þegar Sóknaráætlun 20/20 er búin að skipta landinu upp í ákveðin landsvæði og þar á meðal t.d. Vestfjörðum, að það sé eitt þjónustusvæði — atvinnusvæðin eru kannski meira fljótandi eins og við þekkjum — þá sé það stefnumörkun sem feli það í sér að það eigi að fylgja því samgöngubætur til að þetta svæði geti virkað sem ein heild. Þannig hef ég litið á þessa vinnu og þannig samþættast þessar áætlanir vegna þess að ef þú segir A verðurðu líka að segja B. Hvernig ætlarðu að búa til þjónustusvæði úr einu landsvæði ef samgöngur eru í ólagi? Ég tel að það sé hlutverk okkar að svara því og það sé hluti af þessari stefnumörkun. Með því að ákveða landshlutana svona væri Alþingi að taka ákvörðun um nauðsynlegar samgöngubætur til að það geti gengið eftir. Þannig hef ég séð fyrir mér þessa virkni og svona sjáum við hana líka fyrir okkur.

Hv. þingmaður fjallaði líka, og það hafa gert fleiri hér í dag, um flutning starfa út á land og stofnana. Ég er á því líka að það sé ekki heldur okkar þingmanna eða einstaka ráðherra að taka slíkar ákvarðanir heldur þurfi að gera það með heildstæðum hætti, og það sé líka hluti af þessari vinnu, Sóknaráætlun 20/20. Við þurfum að líta yfir landið. Hvar liggja tækifærin? Hvar eru styrkleikar í því að hafa Fiskistofu? Í gegnum tíðina hefur mér oft þótt þetta tiltölulega tilviljunarkennt eða kannski ekki tilviljunarkennt heldur hefur það oft tengst kjördæmi viðkomandi ráðherra eða þeirra sem tekið hafa ákvarðanir um hvar þessar stofnanir lenda.

En með því að hafa þessa heildarsýn, hafa stefnumörkun um það hvernig við ætlum að beina þjónustunni inn á þessi landsvæði, (Forseti hringir.) getum við tekið réttar ákvarðanir um það hvar staðsetja beri þessar stofnanir.