138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði, að mjög mikilvægt er að menn nái utan um málið í heild sinni. En ég er dálítið hugsi yfir því að nú erum við að ræða þingsályktunartillögu um byggðaáætlun. Á morgun ræðum við um samgönguáætlun. Síðan á sóknaráætlun hugsanlega að ná utan um þetta í heild sinni, og alla vega byggðaáætlun, og samgönguáætlun líka. Eins og hæstv. ráðherra benti á, á að kalla fram í þeirri vinnu sóknarmöguleikana á viðkomandi svæðum til þess að styrkja þau, ég tek heils hugar undir það. Ég velti þó fyrir mér, væri ekki eðlilegra að við mundum ræða sóknaráætlun á undan? Við erum alltaf að ræða um eitthvert plagg sem ná á utan um allt í framhaldinu, en ég hef ekki hugmynd um hvað stendur í þessari sóknaráætlun, hef ekki séð staf í henni eða fengið neina kynningu á henni. Ég held að mun skynsamlegra væri að menn væru komnir lengra í þeirri vinnu en við erum núna. Það væri skynsamlegra að taka þetta í heild sinni.

Ég held að rétt vinnubrögð séu, það þarf ekki að vera neinn pólitískur ágreiningur um það, að menn fari í heildstæða vinnu í það verkefni sem er fram undan. Nú liggur fyrir að við þurfum að fara í mikinn niðurskurð í ríkisfjármálum. Væri ekki skynsamlegra ef við værum búin að taka niðurskurðinn heildstætt saman, möguleika á sameiningu stofnana inn í samþættingu á sóknaráætlun og þar af leiðandi inn í byggðaáætlun og þar fram eftir götunum? Ég held að skynsamlegra væri að taka þetta saman í heild og reyna að raða því saman miðað við verkefnið sem fram undan er, vegna þess að við skárum niður í fjárlögum á þessu ári. Það þarf að skera niður í fjárlögum á næsta ári og svo aftur 2012 og 2013, þannig að ég held að við þyrftum að fá heildarmynd af verkefninu sem er fram undan. Það væri gott ef (Forseti hringir.) sóknaráætlun mundi gera það, ég mundi fagna því.