138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir andsvarið. Við deilum þeirri skoðun eins og flestir, að við viljum hafa búsetuskilyrðin sambærileg, hvar sem fólk býr á landinu.

Mig langar að nefna eitt dæmi sem ég þekki mjög vel. Þegar Fjölbrautaskóli Snæfellinga var stofnaður, en hv. þingmaður er nú gamall skólastjóri, þá breyttust búsetuskilyrðin á Snæfellsnesi mjög mikið og samfélagið sömuleiðis. Tölur sýndu að unglingar frá þessu landsvæði fóru í minna mæli í framhaldsnám eða í menntaskóla en unglingar frá öðrum sambærilegum landsvæðum. En eftir að Fjölbrautaskóli Snæfellinga kom, breyttust búsetuskilyrðin til hins betra og þetta réttist af. Þetta er kannski eitt dæmi um það sem við getum gert til þess að bæta búsetuskilyrði. Við megum heldur ekki gleyma því að ekki hafa allir foreldrar efni á að senda börn sín í skóla um langan veg, því það kostar mikið. Eins hafa margir foreldrar vara á því að krakkarnir fari ungir að heiman og lendi hugsanlega í óæskilegum félagsskap. Við þekkjum því miður dæmi um að hugsanlega er setið um krakka sem koma utan af landsbyggðinni. Þetta er eitt af þeim atriðum þar sem við höfum ekki bætt búsetuskilyrðin.

Hvað varðar veiðileyfagjaldið sem ég nefndi í ræðu minni áðan, er alveg klárt í mínum huga að það er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. Það kemur málinu ekki við þegar menn selja sig út úr greininni eða fjárfesta eitthvað annað út úr greininni, vegna þess að mest af veiðiheimildunum er á landsbyggðinni en ekki í Reykjavík. Það er það sem ég sagði í ræðu minni. Auðvitað gefur auga leið að þegar veiðileyfagjald er lagt á, er það náttúrlega fyrst og fremst landsbyggðarskattur. (Forseti hringir.)