138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi veiðileyfagjaldið held ég að menn verði að skoða hvar arðurinn úr greininni er nýttur, í nútímanum líka, því sem betur fer greiða nú sum sjávarútvegsfyrirtæki arð. Þá skiptir kennitalan mjög miklu og hverjir eiga fyrirtækin og hvar þeir nýta þann arð sem af hlýst. Mikið af arðinum er notað úti á landsbyggðinni en fullyrðingin um að það sé eingöngu á landsbyggðinni er að mínu mati röng.

Mig langar að biðja hv. þingmann um að svara mér varðandi þetta, af því að við vorum að ræða byggðaáætlanir almennt. Við getum verið sammála um að menntun, menning og atvinna skiptir gríðarlega miklu máli. Mig langar að spyrja hvort hann sé sammála mér um að það skipti gríðarlega miklu máli að styrkja sveitarstjórnarstigið, færa vald og verkefni til sveitarfélaganna, þar með málefni fatlaðra og aldraðra og jafnvel heilsugæsluna til lengri tíma litið, og þar með líka úthlutanir eins og í menningarsamningunum og vaxtarsamningunum eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Mig langar að spyrja hvaða önnur tækifæri hann sér um verkefni sem þyrfti að færa til sveitarfélaganna eða til ákveðinna svæða sem fengju forræði yfir sínum málum, í staðinn fyrir að við sætum í fjárlaganefnd eða í einstökum stofnunum í Reykjavík og deildum þessu út.

Í þriðja lagi langar mig að inna hv. þingmann eftir því hvort hann geti ekki verið sammála mér um það að oft eigum við landsbyggðarfólkið töluverða sök, því hrepparígur og starf sveitarfélaga hefur staðið okkur fyrir þrifum. Mig langar að spyrja hvort ekki sé verkefni fyrir Alþingi að reyna að skipuleggja landið með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert og reyna þannig að sporna gegn samdrætti sem þar hefur oft átt sér stað. Þar kemur líka til þáttur sem mér dettur nú í hug, sem þarf að huga mjög vel að. Það er tekjumismunur á milli sveitarfélaganna. Sum sveitarfélög, jafnvel mjög lítil, hafa gríðarlega öfluga tekjustofna af stórum fyrirtækjum. Þetta var áður í landsútsvari (Forseti hringir.) en fer núna til einstakra sveitarfélaga. Það vinnur gegn því að þessi sveitarfélög sjái sér hag í sameiningu og hagræðingu í sambandi við rekstur.