138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að svara því sem hv. þingmaður spurði um í sambandi við hrepparíginn. Við þekkjum hann nú lítið á Snæfellsnesi en maður hefur heyrt sögur af þessu annars staðar á landinu. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að hrepparígurinn hefur oft verið til vandræða þegar bitist er um störf á ákveðnu svæði. Það er alveg klárt, ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um það.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að styrkja þarf sveitarstjórnarstigið. Það er mjög æskilegt ef hægt er að fara í frekari sameiningu sveitarfélaga. Ég hef hins vegar alltaf sagt að auðvitað verða sveitarfélögin að ráða því sjálf. Ég tel helstu ástæðuna fyrir því að margir sveitarstjórnarmenn, þó ekki allir, eru hræddir við sameiningu sveitarfélaga sé reynslan af henni. Ég svara í leiðinni því sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði líka um, að eftir því sem sveitarfélögin eru stærri og öflugri, eru þau betur í stakk búin til að taka að sér stærri verkefni, eins og málefni fatlaðra, aldraðra eða heilsugæsluna, eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég er margbúinn að segja það að reynsla sveitarstjórnarmanna af því, þegar verkefni eru færð til sveitarfélaganna, er sú að það er ekki gert með nógu markvissum hætti. Byrjað er að rífast um tekjustofna til að færa viðkomandi verkefni í staðinn fyrir að segja: „Nú færum við þetta verkefni, við áætlum að það kosti þetta.“ Síðan er bara skoðað eftir tvö ár hver var raunkostnaður verkefnisins. Þá geta menn rétt það í hvora áttina sem er og þurfa ekki að deila og rífast um það mánuðum og árum saman um hvað þurfi að gerast.

Það sem verst er í þessu er að þegar ríkið og sveitarfélögin setjast niður og reyna að semja, ef klárlega hefur hallað á sveitarfélögin eins og alltaf, fer það í gegnum jöfnunarsjóð og er mjög ógegnsætt (Forseti hringir.) og flókið kerfi. Ef við breytum þessum vinnubrögðum, held ég að við mundum ná meiri árangri í að styrkja sveitarstjórnarstigið.