138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðu um byggðamál hefur alltaf verið þrautaráðið að búa til einhverjar töfralausnir. Mér heyrist því miður að lausnin núna í umræðunni í kvöld, eigi að vera sóknaráætlun. Hér liggur fyrir tillaga um stefnumótandi byggðaáætlun sem unnin er á grunni gildandi laga, sem er ekkert annað en tómt snakk og kjaftæði. Það er í rauninni ekkert nýtt í áætluninni sem miðar að því að breyta stöðunni. Þetta er allt eitthvað sem við höfum heyrt áður.

1. liður. „Atvinnustefna, bætt samkeppnishæfni, nýsköpun og sjálfbær þróun.“ Það er ekkert nýtt í þessu. „Samþætting, áætlun og aukið samstarf.“ Vissulega er þetta gott en þetta er ekkert nýtt sem við heyrum. „Efling stoðkerfis, atvinnulífsins, nýsköpun og sprotafyrirtæki,“ o.s.frv.

Stóra málið í öllu þessu kemur fram á bls. 35 í greinargerðinni með þessari makalausu þingsályktunartillögu sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni og hv. þm. Óli Björn Kárason tók upp. Við höfum ekki fengið neina umræðu um þetta. Stóra málið er misræmið á milli vaxtarsvæða landsins.

Komið hefur fram að störfum fjölgaði um 21.100 á ákveðnu árabili fyrir nokkrum árum. Það hrundi síðan núna. Breytingin í atvinnusamsetningunni er þannig að massinn sækir á höfuðborgarsvæðið. Ég spyr enn og aftur: Er vilji til þess að takast á við þetta með einhverjum hætti? Þetta er óhagkvæmt fyrir alla, jafnt höfuðborgarsvæðið sem landsbyggðina. Fyrir þjóðfélagið allt er þetta illt. Það er engin tillaga hér sem miðar að því að vinna gegn þessu. Við dettum alltaf í almennt snakk, skýrslugerð, nefndaskipun og hreppa- og titlatog.

Ég sakna þess (Gripið fram í.) að fá ekki fram hjá nýrri ríkisstjórn (Gripið fram í.) nýjar tillögur. Já, ég er með 18 ára reynslu, hæstv. heilbrigðisráðherra, af þessum barningi. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið tómt strögl. Við erum að reka okkur á.

Það er tækifæri til þess í stöðunni í dag þegar höggið kemur á þetta stóra svæði. Þegar tapast hafa á einu ári 11.000 störf er Reykjavík komin í sömu stöðu og Raufarhöfn hefur verið síðustu árin. Ég vonast til þess, í ljósi þess að við eigum betri og bjartari tíð í vændum, að betri skilningur fáist á þeirri stöðu sem landsbyggðin hefur glímt við undanfarna áratugi. En því miður verð ég ekki var við það hér.

Ég spyr hvort þessi töfraáætlun sem sóknaráætlunin á að vera, mun hún breyta áformum sem koma fram í samgönguáætlun sem lögð var fram á þingi fyrir örfáum dögum? Eigum við að bíða eftir afgreiðslu þingsályktunar um sóknaráætlunina, sem hefur ekki fengist rædd í allsherjarnefnd, þar til við getum lokið afgreiðslu samgönguáætlunar? Ef menn binda svona miklar vonir við sóknaráætlun, ættum við að gera það.

Svona er þetta alls staðar. Ein þverstæðan í málinu er sú að hæstv. iðnaðarráðherra leggur fram lögbundið verk sem er byggðaáætlun og heyrir undir iðnaðarráðuneytið og fer inn í iðnaðarnefnd þingsins. Á sama tíma leggur forsætisráðuneytið fram mál sem kallað er sóknaráætlun og fer inn í allsherjarnefnd, sem er að glíma við miklu fjölbreyttari flóru mála en iðnaðarnefnd nokkurn tímann. Því miður held ég að umræðan sé með þeim hætti að hún drukkni í sama blaðrinu og oft hefur átt sér stað um byggðamál hér á landi.