138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

Íslandsstofa.

158. mál
[22:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil gera örstutta grein fyrir þeim fyrirvara sem við hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerðum. Eins og framsögumaður nefndarálits greindi frá erum við skrifaðar fyrir nefndarálitinu en erum með fyrirvara.

Ég vil byrja á því að segja að ég á sæti í utanríkismálanefnd sem varamaður og hef því á stöku stað komið að vinnu við þetta frumvarp. Ég get alveg tekið undir að unnið hefur verið í góðri samvinnu og sátt í nefndinni. Ég vil hrósa formanni og varaformanni nefndarinnar fyrir það verklag að unnið hefur verið að því að reyna að ná sem breiðastri sátt um málið.

Ég tel til mikilla bóta hvernig búið er að lenda t.d. stjórnarmálum. Ég tel mjög mikilvægt og vil ítreka það sem fram kemur í nefndaráliti og gerð er tillaga um í breytingartillögu að utanríkisráðherra skuli skipa formann stjórnarinnar eftir samráð við aðra tilnefningaraðila. Ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að eins og framsögumaður nefndarálitsins, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, sagði áðan er þetta byggt á grunni Útflutningsráðs og það er ekki síst fyrir þær sakir að í stjórn Útflutningsráðs hefur verið góð samvinna milli atvinnulífsins og opinberra aðila. Það er mikilvægt að það góða samstarf fari yfir til þeirrar nýju stofnunar, Íslandsstofu, sem verið er að setja lög um.

Ég er líka ánægð með það í nefndarálitinu að það sé hnykkt á því að ekki sé verið að stofna nýja stofnun. Hún er byggð á grunni Útflutningsráðs. Ég þekki þar ágætlega til, vann hjá Útflutningsráði um nokkurra ára skeið og veit af því fyrirkomulagi sem þar er — þetta er sjálfstæð stofnun — að það hefur mikið að segja um að auðveldara er að taka ákvarðanir, þær eru hraðari og allir verkferlar eru sveigjanlegri þó að vitaskuld uppfylli Útflutningsráð allar þær kröfur sem gerðar eru til stofnunar sem rekin er fyrir opinbert fé.

Það sem ég set fyrirvara við og vil ítreka er að hér er farið af stað með það að markmiði og í kjölfarið á vinnu sem var sett af stað af þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að taka allar þessar stofnanir og setja þær á einn stað, allt það starf sem unnið er við að kynna Ísland, selja það og markaðssetja, íslenskar vörur, þjónustu og landið sem ferðamannastað, atvinnutækifæri og fjárfestingartækifæri. Þegar þessi vinna var sett af stað var markmiðið að gera það allt saman skilvirkara og sameina krafta, að þetta væru ekki nokkrir smákóngar hingað og þangað heldur væru lagðir saman allir kraftar og unnið vel og skilvirkt að þessu markaðsstarfi sem kemur okkur öllum til góða.

Núna er ekki síður tilgangurinn með þessu að nýta enn betur það takmarkaða fjármagn sem fer í starfið. Því tel ég það mjög mikilvægt og er hugsi yfir því að skrefið hafi ekki verið stigið alla leið í þessari atrennu. Það er beðið með að breyta lögum um ferðamál til að erlenda markaðssetningin hjá Ferðamálaráði komi undir þetta og fjármagnið fylgi. Mér skilst að það eigi að fara í vinnu við endurskoðun laga um ferðamál, en mér hefði þótt eðlilegra að það hefði verið gert á undan og þá allt saman í einum pakka.

Þetta vildi ég skýra hér, frú forseti. Þetta er það sem ég geri helst fyrirvara við en ég árétta að málið hefur tekið jákvæðum breytingum þannig að ég ætla að ljúka umfjöllun minni hér.