138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

271. mál
[22:21]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem ég flyt hér um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði fjallar um það að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að kanna með hvaða hætti og hvort hægt verði að beita Lánasjóði íslenskra námsmanna til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, til að mynda með aðgerðum þar sem beitt væri einhvers konar ívilnunum í gegnum sjóðinn.

Hv. þingmönnum er kunnugt um að Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir gríðarlega veigamiklu hlutverki við að jafna aðstöðu fólks til náms og hefur verið afar mikilvægur í þeim tilgangi um áratugaskeið og skipt þar alveg gríðarlega miklu máli. Sjóðnum hefur hins vegar í sjálfu sér ekki verið falið það hlutverk hvorki að stýra einstaklingum, fólki né menntastofnunum í þá veru að hvetja sérstaklega fólk af öðru hvoru kyninu til að sækja í greinar þar sem gagnstætt kyn er í miklum meiri hluta. Í þessu sambandi má taka sem dæmi að samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands voru í október 2009 rétt rúm 3% þeirra nemenda sem þá voru í hjúkrunarfræðideild karlkyns og á sama tíma voru aðeins um 17% nemenda í rafmagns- og tölvuverkfræðideild konur. Svipuð kynjaskekkja er síðan í mörgum öðrum greinum, bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, og mér er kunnugt um að í einhverjum deildum Háskólans á Akureyri er svipuð skekkja á milli kynjanna.

Því hefur verið velt upp þeim möguleika með hvaða hætti hægt væri að laða karlmenn til að fara í þessar hefðbundnu greinar kvenna og með hvaða hætti hægt væri að nota lánasjóðinn til að laða konur til að fara í hefðbundnar karlagreinar. Ein af þeim hugmyndum sem getið er um í greinargerð er að lánasjóðurinn verði með einhverjum hætti notaður þannig að karlar sem leita í hefðbundnar kvennagreinar fengju ívilnanir, til að mynda með lengingu á greiðslufresti, mögulega með lækkun á vöxtum, lengingu á greiðslutíma o.s.frv. eða með öðrum þeim aðferðum sem menn sæju fært eftir nánari skoðun. Sama mundi vissulega gilda um þær konur sem leituðu í hefðbundin karlastörf.

Það hefur aðeins verið skoðað hvort hægt sé í raun og veru að taka upp svona fyrirkomulag, sem við köllum þá jákvæða mismunun á milli kynjanna, og það er raunar heimild fyrir því í lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þeim lögum er opnað fyrir sérstaka heimild til sértækra tímabundinna aðgerða, sem aðgerð eins og til að mynda þessi, svona ívilnandi aðgerð af hálfu lánasjóðsins. Þegar náð væri tilteknu hlutfalli, þ.e. tilteknu jafnara hlutfalli en það væri nú á milli kynja í tiltekinni grein, mundi ívilnunin, með hvaða hætti sem hún væri, sjálfkrafa falla niður hjá þeim sem þaðan af skráðu sig í viðkomandi grein.

Mikilvægt er að hafa það í huga að það er ekki að tilefnislausu sem velt er upp hugmyndum til að reyna að finna leiðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Áratugabarátta hefur verið við það að reyna að jafna laun karla og kvenna á vinnumarkaði og ein af þeim hugmyndum sem hafa komið upp í því sambandi er að reyna með einhverju móti að fá jafnara hlutfall kynjanna til að sækja í tilteknar greinar.

Í skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra frá í janúar 2009 kemur fram að konur eru almennt með um 16% lægri laun, þ.e. heildarlaun, en karlar og það er vissulega staða sem við getum ekki sætt okkur við. Við þurfum að beita öllum leiðum sem hugsanlegar eru til að snúa þessu við og jafna þennan mun. Til að mynda má benda á það að fleiri hugsa á sömu nótum, m.a. í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun sem lögð var fram á hv. Alþingi fyrr í kvöld. Þar er m.a. kveðið á um það í 7. tölulið, Félagsauður, þar er einmitt kveðið á um sérstaka áætlun um útrýmingu kynbundins launamunar og þetta gæti þá verið ein af þeim leiðum sem við skoðuðum í þá veru. Það hafa líka verið vangaveltur um það í gegnum tíðina hvort líklegt sé að við það að blanda saman kynjum, þ.e. körlum í kvennagreinar og konum í karlagreinar, náist raunverulegt jafnvægi til þess. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar, sem eru þó ekki ítarlegar, hafa sýnt að þegar tekst að auka hlut karla í hefðbundnum kvennagreinum, þ.e. fjölda þeirra starfsmanna sem þangað sækja, hefur tilhneigingin verið sú að laun í viðkomandi greinum hafa smátt og smátt hækkað.

Ég legg því fram þessa tillögu um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og vona að hún fái umræðu í nefnd og mögulega verði hægt að taka hana til afgreiðslu þótt síðar yrði, því að ég tel að þarna sé afar mikilvægt mál á ferðinni og það sé skylda okkar sem löggjafarsamkundu að reyna með öllum ráðum að jafna þennan mun kynjanna sem er löngu, löngu orðinn algjörlega óásættanlegur og ekki til sóma fyrir samfélag á 21. öldinni.