138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

iðnaðarmálagjald.

[12:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hún kemur mér sannarlega ekki á óvart frá þessum hv. þingmanni sem oft og iðulega hefur tekið þetta mál fyrir.

Nú liggur fyrir þessi niðurstaða frá Mannréttindadómstólnum. Við ræddum málið í ríkisstjórn í gær strax eftir að niðurstaðan lá fyrir. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin þarf að fara mjög vandlega yfir þessa niðurstöðu og skoða þetta mál. Því var þremur ráðherrum falið að fara ítarlega yfir málið og meta hvaða afleiðingar og áhrif dómurinn hefur.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega hvort þá verði hætt innheimtu á þessu gjaldi og hvort það verði endurgreitt þeim sem það hefur verið lagt á í gegnum tíðina. Það þarf auðvitað að skoða. Mér finnst ólíklegt að um endurgreiðslu geti orðið að ræða, en auðvitað þarf að taka þetta alvarlega og skoða hvort ekki þurfi að hætta innheimtu þessa gjalds. Við viljum gefa okkur aðeins tíma til að meta þetta og skoða stöðuna.

Hv. þingmaður taldi upp nokkur önnur gjöld til viðbótar. Að gefnu tilefni skal ég beita mér fyrir því að þau gjöld sem hv. þingmaður nefndi verði sérstaklega skoðuð. Ég tel þó ólíklegt að þau muni fá sömu niðurstöðu og iðnaðarmálagjald.