138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

ríkisfjármál og samstarf við AGS.

[12:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni sem segir að við í stjórnarliðinu séum að segja skilið við stjórnarandstöðuna í Icesave-málinu. Ég hef ekki upplifað það með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir. Það hefur verið ágætissamstarf milli flokkanna á undanförnum vikum í þessu máli og ég sé ekki að sú yfirlýsing sem hv. þingmaður vísar til sem send var Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í tengslum við endurskoðunina að því er varðar þann kafla sem snýr að Icesave gangi nokkurn skapaðan hlut lengra en flokkarnir voru búnir að koma sér saman um þó að niðurstaða sé ekki fengin í þeirri deilu. Ég spyr bara hvað hv. þingmaður er að meina með því vegna þess að það var rækilega farið yfir það af okkar hálfu.

Ég ítreka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við óskum eftir góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna í þessu máli sem öðrum. Vissulega eru erfiðir tímar fram undan að því er varðar ríkisfjármálin sem hv. þingmaður nefndi. Það er mjög nauðsynlegt að við getum haft gott samráð um það. Það stefnir eins og hv. þingmaður nefndi í verulegan halla á ríkisfjármálum og við þurfum að fara í mikinn niðurskurð, það er alveg ljóst. Við erum að reyna að skoða leiðir þannig að ekki þurfi að fara eins djúpt í hann og í stefnir. Það stefnir í 50 milljarða kr. niðurskurð og/eða aukna gjaldtöku og við erum þessa dagana að skoða hvort við þurfum að fara eins djúpt í það mál og munum leita m.a. samráðs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um það. Við teljum okkur hafa forsendur til að þurfa ekki að fara eins djúpt í niðurskurðinn og í stefndi.