138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

ríkisfjármál og samstarf við AGS.

[12:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er erfitt að skilja hvernig það má vera að þegar kemur í ljós að afkoma ríkisins er miklu verri en menn höfðu gert ráð fyrir þurfi að ráðast í minni niðurskurð en áætlað hafði verið. Þetta er eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn, eins og yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra varðandi Icesave og aðkomu stjórnarandstöðunnar þar.

Menn leyfa sér að halda því fram, þrátt fyrir að þessi dæmalausa yfirlýsing sem gengur miklu lengra en allt annað hafi verið send til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að enn sé verið að vinna með stjórnarandstöðunni að úrlausn þess máls. Stjórnarandstöðunni og raunar öllum öðrum í þessu landi en ráðherrunum sem undirrituðu yfirlýsinguna var haldið utan við það og þeir ekki upplýstir um hvað þar hefði farið fram fyrr en daginn sem gögnin voru opinberuð af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því vil ég enn eina ferðina biðja hæstv. forsætisráðherra að líta á staðreyndir málsins og fara að huga að ráðstöfunum sem eru í samræmi við það hversu alvarleg staðan er.