138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameiginlegar reglur fyrir fjármálafyrirtæki.

[12:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Eins og við vitum öll hafa bankar neyðst til að leysa til sín fyrirtæki af ýmsum ástæðum, fyrirtæki sem glíma við skuldir sem þeim eru ofviða. Mörg þessara fyrirtækja eru í samkeppnisrekstri í allt frá matvörum til fasteigna, frá ritföngum til steypustöðva o.s.frv. Sem betur fer hefur mörgum fyrirtækjum tekist að sigla í gegnum þennan efnahagslega ólgusjó. Þetta eru fyrirtæki í ágætum rekstri og gætt hefur verið hófsemdar á undanförnum árum í rekstri þeirra. Það er því ekki aðeins spurning um sanngirni gagnvart þessum aðilum heldur ekki síður um almenna skynsemi, að þess verði gætt við endurreisn atvinnulífsins að engum verði refsað fyrir ráðdeild og fyrirhyggju. Það eru engin skilaboð verri í frjálsu samfélagi en þau. Í ljósi þessa beini ég eftirtöldum spurningum og ábendingum til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra:

1. Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því að bönkum verði gert skylt að koma upp sameiginlegri kauphöll eða kauphallartorgi fyrir allar eignir og fyrirtæki sem þær yfirtaka? Þar verði auglýst til sölu með svipuðum hætti og gert er í útboðum og/eða hlutabréf þeirra skráð á kauphallartorgi og gangi þar kaupum og sölum. Þetta er hugsanlega hægt að gera í samvinnu við íslensku Kauphöllina.

2. Bönkum verði skylt að birta ársfjórðungslega allar helstu upplýsingar um rekstur og efnahag þeirra fyrirtækja sem þeir hafa yfirtekið og í þeim efnum fylgt sömu reglum og gilda um skráð fyrirtæki í Kauphöllinni.

3. Bönkum verði bannað með öllu að skipa eigin starfsmenn eða starfsmenn eigin eignarhaldsfélaga í stjórnir fyrirtækja sem þeir yfirtaka.