138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameiginlegar reglur fyrir fjármálafyrirtæki.

[12:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og vil jafnframt nota tækifærið til að bjóða hv. þingmann velkominn í þingsalinn. Ég hef ekki átt orðaskipti við hann í þessum stól áður en hef reyndar löngum átt orðaskipti við hann á öðrum vettvangi, fyrr og lengi.

Þær hugmyndir sem hv. þingmaður viðraði eru vel umræðunnar virði. Ég get kannski ekki tekið undir þær að öllu leyti en þó er sumt af því sem hann nefnir ekki mjög fjarri þeirri hugsun sem ég tel rétta í þessum málum. Ég vil ekki ganga svo langt að skylda fjármálafyrirtæki til að selja öll fyrirtæki eða aðrar fullnustueignir sem þau fá núna í þessu umróti í einhvers konar kauphöll eða á öðru opinberu uppboði en ég tel engu að síður rétt að sú leið verði skoðuð, sérstaklega hvað varðar stærstu fyrirtækin, að útgönguleiðin, ef við köllum það svo, fyrir bankana frá þessum rekstri verði fólgin í því að skrá vænleg rekstrarfélög á markað, hugsanlega selja þá einhvern hluta hlutafjár í fyrstu og svo afganginn síðar. Ég held hins vegar að sú leið henti ekki mjög vel fyrir allan rekstur og allra síst fyrir smæstu fyrirtækin enda er rekstur þeirra oft mjög nátengur einstökum persónum, fjölskyldufyrirtæki eða eitthvað slíkt, og það er vandséð hvernig hægt væri að nota þetta fyrirkomulag fyrir slíkan rekstur.

Ég tel einnig rétt að bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki veiti upplýsingar um rekstur fyrirtækja sem starfa undir verndarvæng þeirra. Ég get upplýst hér að ég veit til þess að það er verið að skoða í meðförum á frumvarpi til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki að skylda þau til þess, en þar er reyndar talað um sex mánaða frest frekar en þriggja.