138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameiginlegar reglur fyrir fjármálafyrirtæki.

[12:18]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spurði í fyrri ræðu sinni um réttmæti þess að bankar skipi starfsmenn sína eða dótturfyrirtækja sinna í stjórnir fyrirtækja sem starfa undir verndarvæng bankanna. Ég get alveg tekið undir að í mörgum tilfellum kann það að orka tvímælis. Ég vil ekki ganga svo langt að banna þetta með öllu en bendi hins vegar á að Samkeppniseftirlitið fær mörg þessara mála inn á borð til sín sem samrunamál og það hefur nú, eftir nýfallinn úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála, talsvert róttækar heimildir til að hlutast til um hvernig staðið er að málum. Ég held að það sé rétta stjórnvaldið til að setja kvaðir bæði um skipan stjórnarmanna og önnur tengsl bankans við (Forseti hringir.) viðkomandi rekstrarfélag.