138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

opinbert neysluviðmið.

[12:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Fyrirspurn mín lýtur að skuldamálum heimilanna. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin ætlar að leggja megináherslu á að fara í sértækar aðgerðir til að endurskipuleggja skuldir heimila, eins og það er kallað, það á að fara í að bjóða fólki upp á greiðsluaðlögunarferli í stórum stíl. Þetta hefur virkað illa hingað til en við skulum vona að þær betrumbætur sem felast í frumvörpum hæstv. félagsmálaráðherra sem nú eru til meðferðar í þinginu muni gera þessa ferla betri og skjótvirkari. Hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar er sem sagt að einstaklingum bjóðist að fara í greiðsluaðlögun með skuldir sínar og það er talað um að aðlaga skuldirnar þannig að fólk geti lifað, eins og það er kallað, mannsæmandi lífi, geti haft efni á afborgunum eftir endurskipulagningu skuldanna og geti jafnframt haft nægilegt fé til ráðstöfunar eftir á og þetta sé kannski fimm ára tímabil sem fólk gengur í gegnum.

Þá blasir hins vegar við ein mjög aðkallandi og mikilvæg spurning. Á Íslandi eru ekki til nein opinber neysluviðmið. Nefnd á vegum viðskiptaráðherra komst að þeirri niðurstöðu með skýrslu sem var birt 5. október 2006 að koma ætti á fót opinberum neysluviðmiðum. Það hefur hins vegar ekki verið gert og við búum við það ástand að neysluviðmið eru í rauninni fjölmörg á Íslandi. Atvinnuleysistryggingasjóður styðst við eitt viðmið, bankarnir við annað, Tryggingastofnun við eitt og Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna er með mjög naumt skammtað viðmið. Það gerir ráð fyrir að einstaklingur lifi á 60.000 kr. á mánuði og hjón með börn á 150.000 kr. á mánuði. Nú langar mig að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, nú þegar við ætlum að fara að endurskipuleggja skuldirnar þannig að fólk eigi að lifa einhverju mannsæmandi lífi: Við hvað á að miða og hvað er að frétta af vinnu (Forseti hringir.) við opinbert neysluviðmið?