138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

opinbert neysluviðmið.

[12:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég get reyndar ekki tekið undir formálann að henni, þ.e. að ríkisstjórnin ætli að leysa vanda heimilanna almennt með sértækum aðgerðum. Það er að mínu mati alls ekki rétt lýsing á þeim úrræðum sem kynnt hafa verið. Þau eru auðvitað fyrst og fremst almenn en hins vegar liggur fyrir að því miður er staða allmargra heimila það slæm að almennar aðgerðir, svo sem greiðslujöfnun, duga ekki til og þess vegna er einnig í boði það sem kalla má sértækar aðgerðir, bæði greiðsluaðlögun og ýmsar aðrar sem m.a. fjármálafyrirtækin hafa kynnt sjálf. Því fer fjarri að verið sé að reyna að leysa allan vandann með sértækum aðgerðum, enda held ég að það hefði verið rangt.

Varðandi það sem þingmaðurinn spurði sérstaklega um, þ.e. opinbert neysluviðmið, er vissulega rétt hjá honum að menn hafa ekki eitt samræmt ríkisneysluviðmið, það er ekki til. Þess vegna nota menn ýmis viðmið og komast eðli máls samkvæmt ekki alltaf að sömu niðurstöðu. Ég skil vel vandann í þessu en ég verð hins vegar að vera alveg heiðarlegur með það að ég held að það sé ákveðin tálsýn ef menn halda að hægt sé að reikna út í eitt skipti fyrir öll hvað fjölskylda af ákveðinni fjölskyldustærð með ákveðinn fjölda barna ætti að nota í útgjöld á hverjum tíma. Menn geta auðvitað neglt niður einhverjar tölur með einhverjum aðferðum en sú tala mun eiga við eitthvert meðaltal. Hún mun ekki eiga við allar þær fjölmörgu mismunandi fjölskyldur sem þurfa að fara í gegnum einhverjar aðgerðir sé miðað við slíkt neysluviðmið. Þó að ég geti að vissu leyti tekið undir að það væri kannski betra að hafa aðeins meiri samræmingu í þessu vil ég ekki vekja með mönnum neinar vonir um að hægt sé að komast að einni réttri niðurstöðu í svona máli.