138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

höfuðstólslækkun gagnvart fyrirtækjum.

[12:26]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Ég vil gera að umtalsefni skuldameðferð fjármálastofnana á fyrirtækjum í þessu landi og beini fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra í framhaldi af frétt sem kom fram undir lok síðustu viku um yfirlýsingar bankastjóra Íslandsbanka um þá höfuðstólslækkun sem bankinn hyggst bjóða fyrirtækjum frá og með þessari viku.

Í örstuttu máli gengur þessi aðgerð út á að fyrirtækjunum sem eru með tekjur í íslenskum krónum en lán í erlendri mynt muni standa til boða að sækja um höfuðstólslækkun þannig að höfuðstóllinn færist aftur til þess tíma sem hann var 29. september 2008, þ.e. fyrir bankahrun. Um leið verður lánunum breytt í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Afleiðingin er sú að höfuðstóll erlendra lána þessara fyrirtækja getur lækkað um allt að 30%.

Mig langar að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann hafi upplýsingar um það hvort sambærileg úrræði séu væntanleg frá hinum fjármálastofnununum, sérstaklega þeim banka sem ríkið á hér að stærstum hluta, þ.e. Landsbanka Íslands. Ef ekki, hvort hann hafi eða sé tilbúinn að beita sér fyrir því að öllum fyrirtækjum í atvinnulífinu sem eru í þeirri þröngu stöðu að vera með þung lán í erlendri mynt standi til boða sambærileg eða svipuð úrræði hjá fjármálastofnunum óháð því hvaða nafni þau nefnast.