138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

höfuðstólslækkun gagnvart fyrirtækjum.

[12:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Ég tek aftur undir orð hv. þingmanns um að þetta er eðlilegt og gott úrræði. Ég fæ ekki betur séð en að allar líkur séu á því að það verði almennt í boði, einfaldlega vegna þess að ég sé ekki neitt sem ætti að koma í veg fyrir það. Þetta er hagur bæði lántakanda og lánveitanda og enginn annar verður fyrir skaða við svona breytingar þannig að ég fæ ekki betur séð en að þetta ætti að geta gengið eftir án þess að hið opinbera beiti sérstökum þrýstingi en auðvitað getum við fylgst með því.

Þetta er einn angi af miklu stærra máli sem er það að íslenskt efnahagslíf — stærstu krónutölurnar voru auðvitað hjá fyrirtækjum en því miður líka miklar skuldir hjá heimilum — skuldsetti sig langt umfram það sem eðlilegt var í erlendri mynt. Reyndar voru skuldirnar líka mjög miklar reiknaðar í innlendri mynt en þessar skuldir í erlendri mynt eru núna vandi sem þrotabú bankanna og nýju fjármálafyrirtækin eru að fást við og þetta er ein leið til þess.