138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-deilunnar er í megindráttum þríþættur. Í fyrsta lagi hamlar það framgangi efnahagsáætlunar í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þrátt fyrir að 2. endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hafi nú verið samþykkt í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hætta á frekari töfum ef lausn fæst ekki í Icesave-deiluna á næstu vikum eða mánuðum.

Framgangur efnahagsáætlunarinnar nú er mikið áhyggjuefni en hann eyðir ekki þeirri óvissu sem óleyst Icesave-deila veldur íslenska hagkerfinu og nægir að vísa í nýlega skýrslu Moody's um það efni. Af þessum sökum getur orðið töf á losun gjaldeyrishafta sem dregur verulega úr skilvirkni hagkerfisins og þar með hagvexti.

Í öðru lagi hamlar óleyst Icesave-deila fjárfestingum vegna þeirrar óvissu sem hún skapar í efnahagslífinu.

Í þriðja lagi hefur Icesave-deilan leitt til hærri fjármögnunarkostnaðar ríkisins og annarra aðila í hagkerfinu, samanber hærra skuldatryggingarálag, þar með talið sveitarfélaga og orkufyrirtækja sem hafa haft aðgang að erlendri fjármögnun.

Það er erfitt að meta beinan kostnað af þessum þáttum en ljóst er að hann er umtalsverður. Augljósasti kostnaðurinn er vegna tafa á fjárfestingu í orkufrekum iðnaði vegna efnahagslegar óvissu og erfiðs aðgengis að fjármagni. Almennt virðist vera samhljómur um að tafir á Icesave-viðræðum og framgangi efnahagsáætlunarinnar hafi leitt til þess að samdráttur ársins 2010 verði meiri en ella, hugsanlega nærri 2% meiri en áður var spáð, sem samsvarar 30 milljörðum kr. og í atvinnuleysi 1–2% hærra.

Áhrif af töfunum aukast með tíma, bæði vegna minni fjárfestinga, t.d. í orkuiðnaði, og vegna hærri fjármögnunarkostnaðar stórra aðila í hagkerfinu. Seðlabanki Íslands taldi í nóvemberspá sinni að ef tafir verða á Helguvík yrði samdráttur 2010 rúmlega 4% í stað rúmlega 2% sem samsvarar rúmlega 30 milljörðum kr. og í spá Seðlabankans frá því í janúar er reiknað með nærri 3% samdrætti í landsframleiðslu. Atvinnuleysi fer í 11% í stað tæplega 10% og gengi krónunnar yrði einnig lægra á tímabilinu.

Hagdeild ASÍ telur að ef framkvæmdir við Helguvík og stækkun Straumsvíkur tefjist um eitt ár verði landsframleiðslan 12,5 milljörðum lægri árið 2010, 16,5 árið 2011 og tæpum 13 milljörðum árið 2012. Þetta þýðir að á þessum þremur árum verður landsframleiðslan 48 milljörðum minni en ella. Verði stróriðjuframkvæmdir slegnar af hækkar sú tala umtalsvert og uppsöfnuð lægri landsframleiðsla árin 2010–2012 yrði um 133 milljarðar kr.

Icesave-deilan hefur leitt til þess að lánshæfismat ríkissjóðs hefur lækkað niður í flokk áhættufjárfestinga hjá einu fyrirtæki og að neikvæðum horfum í síðasta þrepi fjárfestingaflokks hjá hinum. Í kjölfar 2. endurskoðunar hjá AGS hefur Moody's hins vegar breytt horfum aftur í stöðugar.

Af þessu mati ýmissa greiningaraðila má ljóst vera að kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins er verulegur fyrir samfélagið þó að verulega hafi tekist að draga úr skaðlegum áhrifum þess með 2. endurskoðun efnahagsáætlunar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.