138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það má vera að það teljist pólitískt kraftaverk af hálfu ríkisstjórnarinnar að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til þess að standa við það sem alltaf hefur verið sagt af hálfu þess sjóðs, alltaf hefur verið sagt af hálfu framkvæmdastjóra þess sjóðs og annarra talsmanna hans. (Gripið fram í.) Þeir voru frá upphafi skýrir í öllum yfirlýsingum um það, Dominique Strauss-Khan og hans undirmenn, að ekki væru tengsl á milli Icesave-málsins og afgreiðslu láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Vel má vera að það sé með einhverjum hætti kraftaverk, ég er ekki fróður um slíka hluti.

Á hinn bóginn verðum við að horfast í augu við það að þær aðstæður sem sköpuðust voru líka vegna skýrra skilaboða frá íslensku þjóðinni, sem komu í þjóðaratkvæðagreiðslu hér í byrjun mars, sem voru ríkisstjórninni ekki mjög þóknanleg.