138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Stutt athugasemd: Þjóðaratkvæðagreiðslan 6. mars fór fram. Í aðdraganda hennar hefði að öllum líkindum mátt ná samkomulagi við samningsaðila. Það tókst því miður ekki af ástæðum sem formenn allra stjórnmálaflokka hér á landi þekkja betur en sú sem hér stendur.

Síðan þá hefur ekkert gerst. (Gripið fram í.) Síðan þá hefur samningsstaða Íslands verið nákvæmlega hin sama og hún var að morgni dags 7. mars. Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hingað upp og segja að atburðir á þessu ári, synjun forseta lýðveldisins og svo þjóðaratkvæðagreiðslan, hafi gert gæfumuninn í samningsstöðunni ættu þeir að segja þjóðinni, (Forseti hringir.) kjósendunum, í hverju sá gæfumunur er fólginn, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) og hvað hefur gerst frá 7. mars sl. (Gripið fram í.)