138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

þróunarsamvinnuáætlun.

584. mál
[12:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það þarf nú mikinn kjark til þess að koma hingað og svara spurningu hv. þingmanns um hvaða hug núverandi ráðherra hefur til fjárframlaga varðandi þetta með hæstv. fjármálaráðherra sitjandi hér til vinstri handar. Ég hef auðvitað mikinn hug á því að auka þau framlög, það er bara svo.

Það var sammæli um það meðal þingmanna einmitt í þann mund sem hv. þingmaður settist fyrst á þing að ráðast í að auka þessi framlög. Ég hef stundum sagt það í skammardembum sem ég hef beint að Framsóknarflokknum að hann á þó hrós skilið fyrir það og forusta hans, sem nú er reyndar mjög afneitað af núverandi þingflokki. (Gripið fram í.) En það verður samt að segjast að Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir tóku rækilega þar á, þ.e. þau ákváðu í samvinnu við Alþingi að stefna að því að hækka þessi framlög og þau fóru hækkandi ár frá ári. Þau hækkuðu þó mest í tíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem utanríkisráðherra, síðan brast á kreppan og þau hafa fallið aftur, en við ætlum að reyna að halda sjó í þessum efnum.

Ég hef ekki í hyggju og það er ekki ætlan mín að leggja af Þróunarsamvinnustofnun, ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel hins vegar að við þurfum að skoða þessi lög. Það er t.d. hin svokallaða þróunarsamvinnunefnd sem eru fimm fulltrúar skipaðir af þingflokkunum til þess að efla tengslin við þingflokka. Mér vitanlega hafa þingflokkarnir ekkert notað það til þess að viðhalda þeim tengslum við þennan málaflokk. Það er dálítið sláandi í lögunum — þessu var bætt við að tillögu utanríkismálanefndar — að ekki er gert ráð fyrir því að það sé neinn formaður í þróunarsamvinnunefnd. Ekki er gert ráð fyrir því að hún sé kölluð saman með neinum sérstökum hætti. Ég dreg þá ályktun að fyrst þingið hefur ekki tekið ákvörðun um að hafa forustu í nefndinni hafi það gert það af ráðnum huga þannig að ég treysti mér ekki til þess að beita reglugerðarvaldi til þess að setja um það reglur. Væntanlega er það til þess að draga úr einhvers konar valdskörun á millum þróunarsamvinnuráðsins og þróunarsamvinnunefndar, (Gripið fram í.) en ég held að það þurfi (Forseti hringir.) að skoða þetta vel. Frjáls félagasamtök eiga að lögum fimm (Forseti hringir.) fulltrúa í þróunarsamvinnuráðinu. (Gripið fram í.)