138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

rýmkun heimilda til útgreiðslu séreignarsparnaðar.

420. mál
[13:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra að tæpir 40 milljarðar hafa nú þegar runnið út úr séreignarlífeyrissjóðakerfinu frá því að þessi lagasetning var gerð. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum því að samkvæmt lögum má ekki gera fjárnám í lífeyri eða greiðslu úr viðurkenndum lífeyrissjóði. Þeir sem hafa tekið þessar upphæðir út af séreignarlífeyrissjóðum sínum hafa nú þegar eytt þeim að stórum hluta og ráðstafað þeim til greiðslu á fasteigna- og bílalánum og gera þá lífeyrissjóðina tæknilega aðfararhæfa. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum því að nú hefur ríkisstjórnin gefið það út að ekki komi fleiri úrræði til hjálpar fjölskyldum og heimilum í landinu. Nú reynir á og eftir 1. október 2010 eru þessi mál í uppnámi. Það eru örugglega margar fjölskyldur sem hafa tekið út þennan séreignarsparnað sem lenda í vandræðum, gjaldþroti og aðför (Forseti hringir.) og því sem fylgir. Ég hef ætíð verið á móti (Forseti hringir.) þessu því að þetta var gálgafrestur fyrir þessar sömu fjölskyldur.