138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

rýmkun heimilda til útgreiðslu séreignarsparnaðar.

420. mál
[13:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðum. Ég verð þó að segja að ég varð fyrir pínulitlum vonbrigðum með svar hæstv. fjármálaráðherra þess efnis að engin áform væru um það á þessu stigi að ganga lengra. Ég vek athygli á því að hér er um séreignarsparnað að ræða, þetta er ekki sameign. Fólk getur fengið þessa fjármuni greidda út ef það óskar eftir því í einu lagi við 60 ára aldur.

Mér finnst líka sú hugmynd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi um skuldajöfnun athyglisverð og ég tók á sínum tíma undir það hér í þinginu. Ég vil fylgja spurningunni eftir gagnvart hæstv. fjármálaráðherra. Hann benti á að ekki væri það mikil eftirspurn í augnablikinu eftir því að fá séreignarsparnaðinn greiddan út. En ég vil spyrja hann hvort honum finnist koma til greina að opna fyrir það þannig að þeir sem eiga þó einhverja fjármuni í sjóðunum, þeir aðilar sem eru illa staddir og skulda jafnvel mikið, gætu sótt um það með þeim skilyrðum að það væri skuldajafnað, ekki til þess að það færi í neyslu eða eitthvað slíkt heldur að fjármunirnir væru klárlega notaðir í skuldajöfnun eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á.

Ég er enn þeirrar skoðunar, sem ég hef alla tíð verið í þessu máli, að þessir fjármunir, þó þeir séu ekki miklir, nýtist fólki. Við sjáum það á þeim tölum sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér áðan, 45.000 einstaklingar hafa nýtt sér þetta úrræði þó að einungis sé um það að ræða að fólk fái útgreitt eftir skatt um 70 þús. kr. á mánuði. Það segir mér að þetta úrræði (Forseti hringir.) hefur virkað fyrir ákveðinn hóp.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er því þessi: Finnst honum þessi skuldajöfnunarleið koma til greina?