138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

stofnfé í eigu sveitarfélaga.

472. mál
[13:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrri spurningu hv. fyrirspyrjanda, Einars K. Guðfinnssonar, er þetta að segja: Eins og hv. þingmaður kannast við var lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, breytt á síðasta ári á þann veg að settar voru reglur um niðurfærslu stofnfjár í þeim tilgangi að greiða fyrir fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu til styrkingar á eiginfjárstöðu einstakra sparisjóða sem voru í vanda. Unnið hefur verið að því síðustu mánuði að gera samninga við átta sparisjóði í landinu um styrkingu á eigin fé þeirra og þar af leiðandi niðurfærslu stofnfjár á grundvelli laganna. Eins og fram kom hjá hæstv. viðskiptaráðherra þegar hann flutti þinginu munnlega skýrslu um stöðu sparisjóðanna í fyrradag lá fyrir að margir þeirra hefðu þörf fyrir að auka stofnfé sitt til að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi auk rekstrarhagræðingar. Nú hefur það hins vegar gerst að ríkið þurfti að grípa til aðgerða á grundvelli neyðarlaganna og yfirtaka Byr sparisjóð og Sparisjóð Keflavíkur þar sem ekki tókust samningar við kröfuhafa. Því fóru stjórnir sjóðanna þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir starfsemina. Þar með er ljóst hvað þessa sparisjóði varðar að stofnfé þar er glatað. Ljóst er að margir tapa miklu. Það á einnig við um þau sveitarfélög sem áttu stofnfé í Sparisjóði Keflavíkur.

Samkvæmt ársreikningum 2008 áttu níu sveitarfélög stofnfé í þeim sparisjóði. Hjá þeim var bókfært virði þess um 455 millj. kr. og því er um talsvert tjón að ræða, ekki síst hjá þeim sveitarfélögum sem tóku ákvörðun um aukningu stofnfjár við samruna nokkurra sparisjóða við Sparisjóð Keflavíkur. Það kemur t.d. fram við athugun ársreikninga að Vesturbyggð átti 165 millj. kr. í stofnfé í sparisjóðnum, Tálknafjörður átti um 60 milljónir og Húnaþing vestra um 180 millj. kr. Benda má á að þessi eignarhlutur er samkvæmt bókfærðu verði um eða yfir 30% af skatttekjum Vesturbyggðar og Húnaþings vestra en um 37% af skatttekjum Tálknafjarðarhrepps miðað við ársreikning árið 2008.

Hvað aðra sparisjóði varðar mun hin endanlega þörf fyrir aðkomu ríkisins að fjárhagslegri endurskipulagningu ráða afskriftaþörfinni. Mögulegt tjón sveitarfélaga vegna niðurfærslu stofnfjár liggur því ekki fyrir í þeim tilvikum.

Önnur spurning hv. þingmanns er svohljóðandi:

„Hefur verið hugað að mögulegum úrræðum til handa þeim sveitarfélögum sem geta orðið fyrir efnahagslegu tjóni vegna hugsanlegrar lækkunar á stofnfé í sparisjóðum?“

Varðandi seinni spurninguna hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið ekki hugað að mögulegum úrræðum til handa þeim sveitarfélögum sem orðið hafa eða geta orðið fyrir efnahagslegu tjóni af þeim sökum. Í sjálfu sér hyggst ráðuneytið ekki hafa frumkvæði að viðræðum varðandi það tjón sem viðkomandi sveitarfélög hafa orðið fyrir eða kunna að verða fyrir vegna tapaðs stofnfjár. Leiði tap hins vegar til þess að einhver sveitarfélög af þessum komist í fjárþröng eða lendi í erfiðleikum með sinn rekstur, gilda ákveðnar reglur sem skilgreindar eru í VII. kafla sveitarstjórnarlaga þar sem fjallað er um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Ekkert liggur hins vegar fyrir hvort umrætt tjón leiði til slíkra aðstæðna hjá viðkomandi sveitarfélögum. Þeirri spurningu verða viðkomandi sveitarfélög að svara og gera grein fyrir áhrifum þess tjóns á afkomu sína, eins og áður hefur verið sagt.

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir hefur gott samráð verið milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna í kjölfar efnahagshrunsins og ég lýsi mig að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða þetta mál við einstök sveitarfélög, telji þau þörf á því vegna þess fjárhagslega tjóns sem þau hafa orðið fyrir. Eftir slíkum fundi hefur hins vegar ekki verið leitað.