138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

stofnfé í eigu sveitarfélaga.

472. mál
[13:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni og hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni, verðum við að átta okkur á því að sjálfstæði sveitarfélaga er mikið og það er varið. Ég hef stundum sagt að því miður er það það mikið að sveitarfélögin hafa jafnvel sjálfstæði til þess að setja sig á hausinn. Við erum hins vegar í endurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Við erum líka að vinna að því að setja fjármálareglur fyrir sveitarfélög í sátt við Samband ísl. sveitarfélaga. Vonandi leiðir það til þess að ráðuneyti sveitarstjórnarmála fái frekari úrræði til að grípa fyrr inn í. En hv. þm. Óli Björn Kárason ætti að átta sig á því að það er sveitarfélaganna að koma til ráðuneytisins þegar þau telja sig vera komin í fjárþröng. Af því að hv. þingmaður ræddi hér um sveitarfélagið Álftanes kom það allt of seint til ráðuneytisins vegna deilna sem voru innan sveitarstjórnarinnar.

Ég vildi óska þess að við hefðum heimildir til að ganga hraðar fram í þessi máli. Við skulum vona að þingheimur verði sammála því þegar ný sveitarstjórnarlög koma fram að það verði stutt af þingheimi að gera það, vegna þess að fjármálareglur þurfum við sannarlega að setja. Svona getur þetta ekki gengið.

Hvað varðar hv. fyrirspyrjanda, Einar Kristin Guðfinnsson, og bæði fyrri og seinni ræðu hans, hafa umrædd sveitarfélög ekki leitað til ráðuneytisins vegna þess vanda sem hér er varðandi stofnfé í sparisjóðnum. Það hefur ekki verið gert og við getum spurt okkur að því hvaða úrræði sveitarstjórnarráðuneytið hefur. Jú, við höfum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Við erum með eitt sveitarfélag í fjárhaldsstjórn, ég veit ekkert hvernig það endar. Ef við förum að taka peninga úr jöfnunarsjóði í þetta og kannski bæta við einhverju öðru skulum við átta okkur á því að þá verður minna til skiptanna fyrir hin sveitarfélögin. Það gæti verið að þau lentu í vandræðum í framhaldi af því. Þetta eru sértækar aðgerðir sem þarf að fara í og skoða. Ríkisvaldið greip í raun og veru ekki inn í einn sparisjóð sem ég hygg að hv. þingmaður þekki vel til, sá er í hans kjördæmi, Sparisjóður (Forseti hringir.) Mýrasýslu. Þar tapaðist mikið stofnfé. (Forseti hringir.) Hvernig þessu máli reiðir af veit ég ekkert um. Ég bíð eftir því og get sagt það í lokin að ég sakna þess að sveitarstjórnir (Forseti hringir.) skuli ekki hafa vakið athygli á þessu. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að þær hafi rætt það við Samband ísl. sveitarfélaga.