138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameining á bráðamóttöku Landspítala.

351. mál
[13:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra að fá að bera fram þessa fyrirspurn. Við erum búin að reyna í nokkuð langan tíma að koma henni á dagskrá. Ég vil taka það fram að það er ekki við hæstv. ráðherra að sakast að við höfum ekki hist fyrr hér vegna þessa máls. Það er nú eiginlega búið að svara þessum spurningum með verklegum hætti, ef ég get orðað það þannig, en ég held að sé ágætt að við förum samt sem áður aðeins yfir þær spurningar sem ég sendi til hæstv. ráðherra og nýtum tímann til þess að ræða þessa bráðamóttöku.

Fyrirspurnirnar voru tvær. Sú fyrri hljóðar þannig:

Hver er heildarkostnaður við að sameina bráðamóttöku Landspítala á einn stað í Fossvogi?

Það er vitanlega verið að spyrja um þann heildarkostnað sem hlytist af allri framkvæmdinni, þar á meðal kostnað sem er ekki beinn framkvæmdakostnaður, heldur flutningskostnaður og hvað það kann nú að kallast.

Síðan er í öðru lagi spurt:

Er áformað að byggja við slysadeildina í Fossvogi? Ef svo er, hver er áætlaður kostnaður við þá framkvæmd?

Nú er búið að byggja þetta hús þannig að það er væntanlega áformað að byggja við slysadeildina, en það er ágætt að fá upplýsingar um kostnaðinn þrátt fyrir að hann hafi komið fram í fjölmiðlum og annars staðar.

Við höfum áður rætt aðeins þessar breytingar og þá leið sem verið er að fara þarna með nýrri bráðamóttöku. Við veltum því fyrir okkur einhvern tímann, ef ég man rétt, hvort það væri skynsamlegt í ljósi þess að það ætti að loka húsinu í Fossvoginum, að vera að fara í svona framkvæmdir á þessum tíma. Það hefur hins vegar komið fram af hverju það var gert. Það eru spurningar uppi sem við getum áfram velt fyrir okkur varðandi framkvæmdaþjónustu og annað slíkt. Einhvern tímann ræddum við hér einnig áhyggjur mínar af því hvers konar fyrirkomulag yrði t.d. á bráðamóttöku vegna hjartasjúklinga og annars. Það er svo sem eitt og annað sem ekki er alveg jafngott og áður, t.d. er bráðaþjónustan fyrir hjartasjúklinga opin virka daga við Hringbraut en ekki um helgar. Þá þarf að fara inn í Fossvog, ef ég skil þetta rétt, en það er nú annað mál.

Hér er ég að spyrja um framkvæmdakostnað við bráðamóttökuna og hef loks komið þeim hér á framfæri.