138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

tekjur og tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf.

502. mál
[13:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn sem er þó, kannski einkum seinni hluti hennar, allyfirgripsmikil umræða en vonandi getum við tæpt á helstu atriðum. Í fyrsta lagi hvað varðar heimtur útvarpsgjalds einstaklinga annars vegar og lögaðila hins vegar á árinu 2009 er það svo að miðað við álagningu á einstaklinga var gert ráð fyrir að innheimtast mundu rúmlega 3,2 milljarðar. Þann 20. mars sl. var búið að innheimta rúmlega 2,9 milljarða kr. eða ríflega 90%. Hvað varðar lögaðila gerði álagning ráð fyrir að það mundu innheimtast ríflega 540 millj. kr., 20 mars sl. var búið að innheimta ríflega 480 millj. kr. sem gera um 68% heimtur á því gjaldi.

Samkvæmt fjárlögum 2010 fær Ríkisútvarpið 3.218 milljónir eða 3,2 milljarða í ríkisframlag. Samkvæmt yfirliti frá Fjársýslunni nam álagt útvarpsgjald 3,766 millj. kr. við álagningu í ágúst af tekjum 2008 og þar hafa innheimst 3,299 milljónir.

Það má gera ráð fyrir því að álagningin verði heldur lægri í ágúst 2010 vegna þess að launatekjur hafa lækkað og lögaðilum hefur fækkað. Að sama skapi má reikna með að innheimta verði hugsanlega lakari en þar rennum við auðvitað blint í sjóinn.

Hvað varðar það að fella niður útvarpsgjöld á lögaðila er mér kunnugt um þá umræðu sem hv. þingmaður vísar í. Það hefur ekki enn komist í umræðu hér á Alþingi að breyta þessu fyrirkomulagi en ég tel hins vegar mjög mikilvægt, af því að þetta er nýtt fyrirkomulag hlutfallslega, að við metum núna reynsluna af því eftir þessa fyrstu innheimtu og skoðum hvernig þetta gefst. Það hefur hins vegar ekki komið til sérstakrar umræðu að fella þetta niður sisvona. Þegar lögin voru sett á sínum tíma, fyrir mína tíð, voru ákveðin rök með því að þetta yrði skattur jafnt á einstaklinga sem lögaðila. Hins vegar þurfum við að fara yfir fyrirkomulagið og munum væntanlega gera það nú í sumar. Ég á ekki von á að það verði breytingar fyrir næsta gjalddaga en það gæti hins vegar komið til umræðu hér á Alþingi næsta vetur ef við metum það svo.

Í þriðja lagi hvað varðar hina opinberu styrki er í 61. gr. EES-samningsins kveðið á um að óheimilt sé að veita ríkisstyrki sem raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum. Frá þeirri meginreglu eru nokkrar undantekningar þar á meðal ríkisaðstoð sem er veitt til starfsemi sem hefur almenna efnahagslega þýðingu og felld er undir d-lið 3. mgr. 41. gr. samningsins. Þar fellur ríkisstyrkur í formi afnotagjalda til að standa straum af útvarpsþjónustu í almannaþágu undir þennan flokk, og sú sérstaða, útvarpsþjónusta í almannaþágu, byggist m.a. á bókun við Amsterdam-sáttmálann frá 1997 sem kölluð er Amsterdam-bókunin. Þar er kveðið á um að fyrirkomulag útvarpsþjónustu í almannaþágu standi í beinu sambandi við lýðræðislegar, félagslegar og menningarlegar þarfir hvers samfélags, jafnframt þörfina á að standa vörð um fjölbreytni fjölmiðla. Það sem þá hvílir á hverju ríki er að skilgreina þessar þarfir þegar veittir eru styrkir til útvarpsþjónustu í almannaþágu, þ.e. að skoða hvernig þessar þarfir eru uppfylltar og hvort styrkurinn nýtist til þeirra. Kveðið er á um þetta í alllangri bókun sem ég ætla ekki að nýta minn tíma hér til að lesa upp orðrétt en þetta er megininntakið. En hins vegar er þar líka kveðið á um að þetta eigi ekki að skerða viðskiptaumhverfi og samkeppni innan Evrópusambandsins.

Í þessari ályktun er lögð áhersla á að almennur aðgangur að fjölbreyttum dagskrárrásum og útvarpsþjónustu sé nauðsynleg forsenda þess að allir hafi án aðgreiningar jöfn tækifæri til að njóta þjónustunnar til þess að uppfyllt sé skyldan um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Enn fremur er lögð áhersla á að almannaútvarp nýti sér tækniframfarir þannig að almenningur njóti góðs af nýrri hljóð- og myndmiðlaþjónustu og nýjum miðlunarleiðum og til þess að stuðla að þróun og fjölbreytni á stafrænni öld. Enn fremur segir þar að útvarpsþjónustu í almannaþágu verði að vera fært að bjóða áfram upp á úrval efnis í samræmi við almannaþjónustuhlutverkið eins og það er skilgreint af aðildarríkjunum þannig að þjónustan eigi erindi við samfélagið í heild sinni. Í því sambandi sé það lögmætt hlutverk að leitast við að höfða til breiðs hlustenda- og áhorfendahóps. Þannig er útvarpsþjónustan skilgreind.

Stjórnvöldum í hverju landi er í sjálfsvald sett hvernig þessi þjónusta er skipulögð en þetta hefur verið haft að leiðarljósi við samningu núgildandi þjónustusamnings og við endurskoðun hans núna verður þetta yfirmarkmið, þ.e. að skilgreina almannaþjónustuhlutverkið þannig að við uppfyllum þessa EES-tilskipun. Ég get farið nánar yfir það í síðara svari mínu hér.