138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sönn og góð umræða fer hér fram um framkvæmdarvaldið og hvernig það gengur um ríkiskassann. Úr því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, situr í salnum langar mig til að beina til hans spurningu. Eitt loforð af lista ríkisstjórnarinnar var að gera eitthvað í fangelsismálum. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að tala um vandræði heimilanna og fjölskyldnanna, en fangelsismálin standa út af.

Einn daginn birtist fréttatilkynning frá ríkisstjórninni um að nú ætti að byggja nýtt fangelsi fyrir 1 milljarð kr. og skyldi fjármögnunin fara eftir því hvernig gengi að afla fjár. Síðan hefur hvorki frést af þessari byggingu né því fé sem á að koma í það fangelsi. Ekki virðist vera gert ráð fyrir því á fjárlögum að uppfylla skilyrði til fangelsisvistar. Ríkið verður sjálft í náinni framtíð fyrir kostnaði upp á 1,2 milljarða kr. vegna þess að það eru ekki næg fangelsisrými í landinu.

Þess vegna langar mig til að spyrja formann fjárlaganefndar: Stendur til að byggja í Reykjavík þetta fangelsi sem er talað um, gæsluvarðhaldsúrskurðarfangelsi? Það er litið mjög til lífeyrissjóðanna vegna þessara mála og fjármögnunar. Eins og við höfum tekið eftir í fréttum og ég hef margoft bent á, löngu áður en ég settist á þing, virðast lífeyrissjóðirnir ekki eins stöndugir og þeir gefa upp í ársreikningum sínum enda hefur komið á daginn í ársuppgjörum undanfarinna daga að þar eru fleiri tugir milljarða afskrifaðir. Og hverjir eiga peningana? Jú, landsmenn.

Á eitthvað að gera í fangelsismálum, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, þar sem hann fer fyrir þeirri nefnd? Hvernig er staðan í ríkisstjórninni með þessi mál?