138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á mánudaginn var ræddum við málefni sparisjóðanna að gefnu tilefni eftir að ríkið hafði yfirtekið tvo stóra sparisjóði, Byr og Sparisjóð Keflavíkur. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram en það vantaði hins vegar mjög á að spurningum sem lagðar voru fram af hv. þingmönnum væri svarað með fullnægjandi hætti. Boðað var af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim umræðum að fram undan væri talsvert mikil uppstokkun á sparisjóðakerfinu.

Ég leitaði eftir svörum um hvað þetta fæli í sér en fékk engin svör. Ég vakti athygli á því í þessari umræðu að gert væri ráð fyrir því að annar sparisjóðurinn héldi áfram sem sparisjóður, þ.e. Sparisjóður Keflavíkur, en hinum sjóðnum, Byr, hefði verið breytt í hlutafélag. Ég spurði eftir því hvort þetta boðaði einhverja sérstaka uppstokkun á sparisjóðafyrirkomulaginu og hvort ætlunin væri að þessir tveir sparisjóðir yrðu áfram starfandi sem sparisjóðir í framtíðinni. Við því fengust engin svör. Hins vegar hafa verið að birtast upplýsingar í fjölmiðlum, bæði í gærkvöldi og núna í morgun, um að ætlunin sé að nota sparisjóðinn Byr, sem áður var, í einhvers konar uppstokkun af allt öðru tagi og að hann verði ekki hluti að sparisjóðahópnum í framtíðinni.

Það kunna að vera rök fyrir þessu, ég ætla í sjálfu sér ekkert að leggja neinn dóm á það. Það sem mér finnst hins vegar alvarlegt er að við ræddum þessi mál hér á mánudaginn, þingmenn kalla eftir svörum við tilteknum spurningum sem lúta að þessu. Þau svör eru ekki gefin hér í þinginu en þau birtast í fjölmiðlum með sérkennilegum hætti.

Mér finnst ekki gott að það sé nánast verið að vinna að þessum breytingum á bak við tjöldin á sama tíma og ekki er svarað spurningum sem lúta að þessu hér í þinginu og ég kalla eftir því að þessi mál séu skýrð frekar. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að ræða þetta mál við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra en vek athygli á málinu hérna vegna þess að mér finnst mikilvægt að þingið hafi með einhverjum hætti atbeina að þessu, hvort sem það er gert á vettvangi viðskiptanefndar eða (Forseti hringir.) með öðrum hætti. Ég tel að þingið þurfi að vera með í ráðum um þessi mál.