138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að taka undir þau orð sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði áðan, við þurfum að huga að því sem er að gerast í þeim löndum Evrópu sem nú eiga í vanda. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp og nefni þetta er að það hefur mikið verið rætt um að það hafi vantað viðbragðsáætlun þegar íslenska bankahrunið átti sér stað.

Mig langar að spyrja þingheim: Kannast þingheimur við að verið sé að vinna slíka viðbragðsáætlun í dag, hvort núverandi ríkisstjórn hafi brugðist við og sé að láta vinna slíka áætlun og þá hvort hún hafi verið kynnt fyrir þingmönnum? Ég held að svo sé ekki. Það er mjög mikilvægt að við lærum af þeirri reynslu sem við gengum í gegnum og að við vinnum slíka áætlun. Ég er ekki að segja að hér verði annað bankahrun eða slíkt en við þurfum hins vegar að vera klár í bátinn ef að því kemur.

Frú forseti. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hreyfði við mikilvægu máli, um réttindi skuldara. Nú þýðir ekki lengur fyrir þing eða ríkisstjórn að skýla sér bak við pappírsflóð skýrslunnar eða eldgos, það verður að taka á þessum málum núna á næstu dögum, það er ekkert flóknara en það.

Ég vil nefna að allir þingmenn hafa fengið póst frá manni úti í bæ sem lýsir reynslu sinni af því hvernig sé að eiga við bankakerfið vegna skulda sinna.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa hér upp stuttan kafla úr þessum ágæta pósti:

„Hvenær á að gera eitthvað fyrir fórnarlömb hrunsins nú þegar búið er að greiða götu gerendanna aftur inn í íslenskt viðskiptalíf? Það er ekki verið að gera neitt fyrir þá sem eru raunverulega að komast í þrot, það er aðeins verið að hjálpa þeim sem hjálpa sér sjálfir.“

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þennan póst og aðra pósta sem þeir hafa fengið frá þessum ágæta manni. Þessi póstur er dagsettur 27. apríl, þeir hafa komið fleiri.