138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í íslensku bönkunum í dag eru framin níðingsverk. Sama á við um fjármögnunarleigurnar. Þetta er í ótæpilegu magni og er ástæða til að fara ofan í saumana á því.

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá hjónum á Skáldabúðum í Árnessýslu sem voru neydd af Íslandsbanka til þess að selja jörð sína. Hún var seld án auglýsingar, hún var seld ættingjum bankastjórans sem vélaði um málið. Þannig eru mörg dæmi, til að mynda í fjármögnunarleigum varðandi bíla og önnur tól og tæki sem þar eru geymd.

Þetta er náttúrlega engu lagi líkt. Því vil ég spyrja hv. formann samgöngunefndar með tengingu við sveitarstjórnarsvið hvað honum finnst um þetta verklag, hvað honum finnist um þessa skjaldborg um fólkið í landinu, um byggðina í landinu, þar sem bankar komast upp með þau vinnubrögð að keyra fólk ofan í svaðið. Ég held að það sé vægt til orða tekið að segja að hér eru unnin níðingsverk.

Þetta tilvik var annað af tveimur, hitt viðkemur Refsstöðum í Borgarfirði, þar sem bændur voru knúnir til að selja. Það hafði verið í farvegi ákveðin lausn. Svo komu nýir eigendur að Íslandsbanka um síðustu áramót og þá breyttist allt og hætt var að skoða hlutina á skynsamlegan hátt. Fólkið var keyrt niður í svaðið, fjölskylda sem hafði verið í tengslum við þessa jörð í yfir 100 ár. Þetta er hlutur sem á ekki að ganga á Íslandi í dag. Við ættum að vera búin að læra af reynslunni, læra af því hvernig bankarnir hafa verið ríki í ríkinu um langan tíma (Forseti hringir.) og halda svo áfram eins og ekkert sé, blygðunarlaust.