138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2009–2012.

Samkvæmt lögum um samgönguáætlun, nr. 33/2008, skal samgönguráðherra leggja á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð skal stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu 12 árin. Jafnframt skal samgönguráðherra á tveggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára verkefnaáætlun samgönguáætlunar. Hér verður að gera skýran greinarmun á stefnumörkun og markmiðssetningu til 12 ára og verkefnaáætlun til fjögurra ára sem er fjárhags- og tímaáætlun einstakra verkefna.

Gildandi stefnumörkun, þ.e. samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014, var samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi 13. mars 2003 en tillaga samgönguráðherra fyrir árin 2007–2018, sem lögð var fram 12. febrúar 2007, var ekki afgreidd frá Alþingi. Samgönguráð vinnur nú að gerð tillögu til endurskoðaðrar stefnumörkunar og að markmiðum, þ.e. samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. Áætlað er að leggja tillöguna fram á 139. löggjafarþingi, 2010–2011.

Virðulegi forseti. Gildandi verkáætlun, þ.e. samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010, var samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi 17. mars 2007. Vegna mikils niðurskurðar á þorskkvóta haustið 2007 var ákveðið að gera viðauka við áætlunina sem samþykktur var sem þingsályktun frá Alþingi 29. maí 2008. Að öllu eðlilegu hefði átt að leggja fram og samþykkja endurskoðaða verkefnaáætlun fyrir árin 2009–2012 á 135. löggjafarþingi, en vegna mikillar óvissu í efnahagsmálum varð ekki af því. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hóf niðurskurð til samgöngumála með því að skera niður í fjárlögum 2009 um heila 6 milljarða kr. og tók út svokallaða símapeninga, þ.e. um 4,2 milljarða kr., sem var sérstök fjármögnun sem ráðstafa átti til ákveðinna verkefna.

Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur því miður líka þurft að skera niður. Rétt eftir myndun hennar, þegar í ljós kom að fjárlög ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir árið 2009 stóðust ekki og að viðbótarniðurskurður upp á 20 milljarða kr. blasti við, misstum við 3,7 milljarða kr. út af samgönguáætlun til viðbótar. Lokafjárlög 2008, verðlagsþróun, framlag í fjárlögum 2010, eru 12 milljörðum lægra en á fjárlögum 2009. Í samgönguáætlun þessari, verkefnaáætlun fyrir árin 2009–2012, er því óhjákvæmilegt að um frestun verkefna verði að ræða en ég tek skýrt fram að ekki hefur verið hætt við eitt einasta verkefni.

Rétt er að ítreka að strax á næsta þingi, samhliða tillögu að nýrri stefnumörkun, samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022, verður lögð fram ný endurskoðuð tillaga að verkefnaáætlun fyrir fyrstu fjögur ár þess tímabils, þ.e. 2011–2014. Í þessari ræðu vil ég kynna fyrir hv. alþingismönnum helstu forsendur og áhersluþætti sem áætlun þessi byggir á.

Þrátt fyrir að fyrsta ár áætlunartímabilsins sé liðið er í þingsályktunartillögu þessari gerð grein fyrir þeim fjármunum sem til ráðstöfunar voru og í hvaða verkefni þeir fóru, en þeir voru að mestu bundnir í þegar gerðum samningum þegar til niðurskurðarins kom.

Með tilliti til framangreinds og þess að áætlun um ríkisfjármál 2011–2012 liggur ekki fyrir þótt samdráttur á framlögum ríkisins sé fyrirsjáanlegur er í tillögu þessari gert ráð fyrir 10% samdrætti í framlögum til rekstrar frá 2010–2011 og sömu framlögum 2012. Gert er ráð fyrir 10% niðurskurði á framkvæmdafé Siglingastofnunar og til flugmála en til vegaframkvæmda verði varið 7.500 millj. kr. árið 2011 og 7.000 millj. kr. árið 2012. Með þessari tillögu er gerð grein fyrir ráðstöfunum fjármuna í samræmi við fjárlög áranna 2009 og 2010 og framangreindum framlögum árin 2011 og 2012.

Í stöðugleikasáttmálanum er gert ráð fyrir að ráðist verði í stórframkvæmdir. Við framlagningu samgönguáætlunar þessarar er gert ráð fyrir að farið verði í stórframkvæmdir í samgöngumálum með lánum frá lífeyrissjóðum á áætlunartímabilinu. Vikið verður nánar að þeim síðar en gert er ráð fyrir að þeim fjármunum sem losna við ákvörðun um þær framkvæmdir verði ráðstafað til framkvæmda á landsbyggðinni.

Fyrir liggur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að mótuð verði heildstæð stefna fyrir Ísland í þágu atvinnulífs og samfélags. Markmið þeirrar áætlunar, sóknaráætlunar fyrir Ísland, er að landið skipi sér aftur í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að því hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma. Sóknaráætlun felur m.a. í sér áform um fjárfestingar í nauðsynlegum innviðum samfélagsins eins og í samgöngunum.

Nú stendur yfir umfangsmikil vinna við endurskipulagningu samgöngustofnana. Markmiðið með þeirri vinnu er að ná fram meiri hagræðingu, bæði faglega sem fjárhagslega, og ná þannig fram öflugri stofnunum en nú. Tillaga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er sú að mynduð annars vegar verði stjórnsýslustofnun og hins vegar framkvæmda- og rekstrarstofnun. Að þessu er nú unnið í ráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Í samræmi við markmið ríkisstjórnar er stefnt að því að auka hlut almenningssamgangna í samgöngum og auka þannig þjónustu við borgarana. Þegar hefur farið fram greining á stöðu almenningssamgangna sem fram fer með styrkjum ríkisins. Hún takmarkast að mestu við ferjusiglingar og samgöngur milli höfuðborgar og landsbyggðarinnar. Sú greining hefur leitt í ljós að nýting þessara almenningssamgangna er afleit. Hagkvæmni er lítil og t.d. er verið að styrkja fleiri en eina tegund almenningssamgangna á nokkra staði sem eru þá í innri samkeppni.

Ljóst er að grundvallarbreytingar verður að gera á skipulagi almenningssamgangna og framkvæmd. Svigrúm til breytinga nú er þó lítið þar sem mikill hluti fjármuna til samgöngumála er bundinn eins og er, auk þess sem flestir samningar vegna almenningssamgangna gilda til ársloka 2010. Þá hefur verið sett fram stefna um hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum höfuðborgarsvæðisins eða aðkomu ríkisins að þeim. Unnið er nú að langtímastefnumörkun um almenningssamgöngur sem kynnt verður í 12 ára áætluninni í haust. Þá verður leitast við að móta stefnu um hvernig tryggja megi lágmarksþjónustu vegna ferða milli svæða á landinu og flutning almennings innan svæða til að sinna þörfum samfélags og atvinnulífs. Lögð verður áhersla á samvinnu við svæðasamtök sveitarfélaga til að efla málaflokkinn.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er rík áhersla lögð á umhverfismál. Eitt brýnasta verkefnið sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þar með hlýnun jarðar. Að mörgu leyti hefur staða Íslands í loftslagsmálum skýrst eftir að ráðherraráð ESB samþykkti beiðni Íslands um að gera samkomulag milli Íslands og ESB um sameiginlegt markmið í loftslagsmálum. Með samkomulaginu munu iðnaður og flugstarfsemi þurfa að standast kröfur viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Þá þarf Ísland einnig að draga úr annarri losun, frá sjávarútvegi, samgöngum o.fl., samanber markmið umhverfisráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Miðað er við að stórefla möguleika á notkun reiðhjóla sem samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu með gerð áætlunar og til framkvæmda í stígagerð. Vísað er til heimildar í vegalögum, nr. 80/2007, til að veita fé af samgönguáætlun til almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum samkvæmt sérstakri áætlun sem skal gerð að höfðu samráði við sveitarfélög. Reiknað er með að viðkomandi sveitarfélög taki þátt í kostnaði að undangengnum samningum þar um.

Til skoðunar hefur verið með hvaða hætti mætti koma á strandsiglingum að nýju með það að markmiði að draga annars vegar úr landflutningum með tilheyrandi álagi á vegakerfið og hins vegar til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið þar sem siglingar eru mun umhverfisvænni kostur. Starfshópur á vegum ráðuneytisins hefur skoðað þessa kosti, m.a. hvort verði af ekjusiglingum með flutningavagna milli Reykjavíkur og stærstu hafna innan lands. Ýmislegt bendir til að strandflutningaþjónusta, þar með talið með ekjuskipum, geti verið hagkvæm, sérstaklega fyrir vagna sem ekið er eftir vegum til skips og frá skipi. Haldið verður áfram að skoða þessa möguleika og skýrsla er að verða tilbúin um þetta sem verður skilað í þessari viku. Frumvarp til laga um breytingar á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum, hefur jafnframt verið lagt fyrir Alþingi.

Þá kem ég, virðulegi forseti, að uppbyggingu áætlunarinnar:

Að venju skiptist samgönguáætlunin í:

1. almennan inngang,

2. flugmálaáætlun þar sem eru 13,5 milljarðar kr. sem inniheldur áætlun fyrir Flugmálastjórn Íslands, samtals 1.770 millj. kr., og fyrir flugvelli og flugleiðsöguþjónustu, samtals 11.807 millj. kr., þar af 980 millj. kr. vegna nýframkvæmda,

3. siglingamálaáætlun, tæpa 8 milljarðar kr., en af henni fara 3,9 milljarðar kr. til reksturs og rúmir 4 milljarðar til nýframkvæmda,

4. í vegáætlun sem fær tæpa 85 milljarða kr. en af þeirri upphæð fara 2,4 milljarðar kr. til reksturs Vegagerðarinnar, 19 milljarðar kr. í þjónustu, styrki og rannsóknir, 18 milljarðar kr. til viðhalds og heilir 44 milljarðar kr. í nýframkvæmdir,

5. áætlun Umferðarstofu sem er samtals upp á 2,1 milljarð kr. og

6. umferðaröryggisáætlun sem fjármögnuð er af vegáætlun og fær samtals 1.300 millj. kr.

Vík ég þá að einstökum framkvæmdum þessar áætlunar. Þá er helst að nefna að í Suðurkjördæmi verður lokið við Landeyjahöfn og vegaframkvæmdir að henni. 1.150 millj. kr. verður varið til að hefja tvöföldun Suðurlandsvegar vestan Litlu kaffistofunnar á árunum 2010–2011. Lokið verður við Bræðratunguveg um Hvítá, Lyngdalsheiðarveg og Suðurstrandarveg. Í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi eru stærstu framkvæmdirnar þær að byrjað verður á Arnarnesvegi frá Reykjanesbraut að Rjúpnavegi, lokið verður við Álftanesveg og 2,2 miljörðum kr. verður varið til ýmissa verkefna, svo sem bætts umferðarflæðis, almenningssamgangna, hjóla- og göngustíga, göngubrúa, undirganga og öryggisaðgerða.

Í Norðvesturkjördæmi verður 2,9 milljörðum kr. varið í Vestfjarðaveg en stærsta verkefnið þar er að byrjað verður á kaflanum Eiði/Kjálkafjörður. Þá er verið að ljúka við Bolungarvíkurgöng eins og kunnugt er og haldið verður áfram með Strandaveg á kaflanum Djúpvegur/Drangsnesvegur.

Ég tek það sérstaklega fram vegna þess að vestur á fjörðum hefur verið mikil umræða um Dýrafjarðargöng og talið að hætt hafi verið við þau. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekki hætt við neitt verk, verk hafa færst aftar og það er engin spurning að áfram verður haldið með undirbúning fyrir Dýrafjarðargöng og þau munu líta dagsins ljós. Þau eru í langtímaáætlun og ég minni líka á endurskoðun stuttu áætlunarinnar 2011–2014. Þar munu Dýrafjarðargöng sjást.

Í Norðausturkjördæmi er eins og kunnugt er verið að ljúka Héðinsfjarðargöngum og stórum áföngum á Norðausturvegi. Þá er gert ráð fyrir að byrjað verði á Norðfjarðargöngum og lokið við kaflann á Dettifossvegi, sem er í gangi núna, frá hringvegi að Dettifossvegi vestri, en ég vil taka skýrt fram að seinni hlutinn er ekki inni í þessari áætlun.

Meðal framkvæmda á áætluninni eru framkvæmdir sem sérstaklega munu gagnast ferðaþjónustunni. Má þar sem dæmi nefna Lyngdalsheiðarveg, Suðurstrandarveg og Dettifossveg. Með öðrum orðum hefur verið horft sérstaklega til þarfa ferðaþjónustunnar á þessu sviði.

Vík ég nú máli mínu, virðulegi forseti, að sérstakri fjármögnun. Með stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í kjölfar efnahagshrunsins, um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu fjórum árum, var óhjákvæmilegt að gripið yrði til róttækra aðgerða, þar með talið með verulegum niðurskurði verklegra framkvæmda og með því að setja skorður við frekari skuldsetningu ríkissjóðs. Þessar aðgerðir eru í samræmi við og byggðar á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við þessar aðstæður hefur verið horft til annarra valkosta auk hefðbundinnar fjármögnunar við fjármögnun stærri vegaframkvæmda, þar með talið einkaframkvæmdar eða annars fyrirkomulags fjármögnunar með gjaldtöku.

Ljóst er að markaðir tekjustofnar til samgöngumála standa ekki undir brýnum framkvæmdum. Því er mikilvægt að finna aðrar fjármögnunarleiðir. Í samræmi við stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og samtaka vinnumarkaðarins var ákveðið að kanna hvort efla mætti atvinnu og halda uppi viðunandi framkvæmdastigi næstu missirin með þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun margvíslegra framkvæmda. Þar á meðal eru ýmsar vegaframkvæmdir, svo sem við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, Vaðlaheiðargöng, Sundabraut, tvöföldun Hvalfjarðarganga, byggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll og stækkun flugstöðvar á Akureyri. Viðræður hafa staðið yfir um nokkurt skeið milli stjórnvalda og fulltrúa lífeyrissjóðanna vegna fjármögnunar þessara verkefna.

Ljóst er að til að ráðast í stórframkvæmdir, þar með talið þær sem ég taldi upp, án þess að auka skuldsetningu ríkissjóðs verður að taka upp notendagjöld. Ef horft er til þeirra aðferða sem notaðar eru í ríkjunum í kringum okkur hafa notendagjöld verið nýtt til að standa undir kostnaði af rekstri og uppbyggingu samgöngukerfisins þar sem notandi greiðir, til að stýra notkun með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum og síðan til að flýta fyrir framkvæmdum sem þegar hafa verið ákveðnar í langtímaáætlunum.

Það er ekki nýtt að gert sé ráð fyrir sérstakri fjármögnun í samgönguáætlun. Í fyrri áætlunum var gert ráð fyrir að nokkrar framkvæmdir og verkefni á sviði flugmála, siglingamála og vegamála yrðu fjármagnaðar þannig. Ástæða þess var sú að um var að ræða viðamiklar framkvæmdir sem rúmuðust ekki innan markaðra tekna. Í gildandi samgönguáætlun 2007–2010 er gert ráð fyrir að nokkrar framkvæmdir verði fjármagnaðar sérstaklega. Nefna má þar lengingu Akureyrarflugvallar og byggingu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík. Þá hefur verið horft til sérstaks átaksverkefnis í uppbyggingu flutningabrauta frá Reykjavík til Akureyrar annars vegar og frá Reykjavík að Markarfljóti hins vegar.

Í áætluninni er ekki tekin bein afstaða til þess með hvaða hætti þessi fjármögnun á sér stað. Með gjaldtöku á notendur er annars vegar hægt að leggja í mannaflsfrekar samgönguframkvæmdir til að halda upp atvinnu í landinu og hins vegar að flýta einstökum framkvæmdum í forgangsröðun sem hefur þó ekki áhrif á röðun annarra framkvæmda sem fyrirhugað er að fara í í samræmi við langtímaáætlun í samgöngumálum. Mikilvægt er að Alþingi fjalli um og taki afstöðu til þess hvort og þá hvaða framkvæmdum eigi að flýta með gjaldtöku eða sérstöku framlagi. Ég er þegar búinn að geta hér um framkvæmdir sem hugsanlega kæmu til skoðunar í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. samgöngunefndar.