138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina örfáum spurningum til hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi það sem hann kom inn á í ræðu sinni. Þegar gerður var sérstakur viðauki við samgönguáætlunina árið 2007 vegna aflabrests var þar eitt verkefni sem var Fróðárheiði. Nú er því verkefni ekki lokið og vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því að það verkefni er ekki á samgönguáætlun, en sérstaklega var farið í það vegna aflabrests á svæðinu.

Farið hefur verið í aðrar framkvæmdir sem fylgdu þessu verkefni og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að þetta er ekki inni. Ég vil líka að gefnu tilefni minna hæstv. ráðherra á að árið 1994 þegar kveðið var á um sameiningu sveitarfélaganna á þessu svæði lýsti hæstv. forsætisráðherra, sem var þá hæstv. félagsmálaráðherra, því yfir að að sjálfsögðu yrði að klára þennan veg, öðruvísi gæti sveitarfélagið ekki sameinast.