138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig hér út í viðaukann sem samþykktur var 2008, sem er alveg rétt. Hann getur um sameiningu sveitarfélaga sem varð á Snæfellsnesi 1994 þar sem vafalaust hefur verið talað um þessa framkvæmd eins og ýmsar aðrar. Það er vel þekkt að talað hefur verið um ýmsar framkvæmdir í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og það er mikilvægt atriði. Ég hef sagt að það sé kannski eitt af mikilvægustu atriðunum þegar menn tala um sameiningu sveitarfélaga á komandi árum, þ.e. það hvaða samgönguframkvæmdir verða settar þar inn, hverjar eru nauðsynlegar.

Hér nefnir hv. þingmaður Fróðárheiði og talar um 1994. Það er alveg rétt að Fróðárheiði kom ekki inn fyrr en í viðaukanum árið 2008. Þegar við áttum fund um þessa áætlun með samgöngunefnd spurði hv. þingmaður þessarar sömu spurningar og ég verð bara að viðurkenna að hann rak mig þar á gat og hefur líka gert það hér.

Mér kom á óvart að þetta hefði ekki allt verið inni til að klára verkið þegar það var sett inn í viðauka. (Forseti hringir.) Ég verð bara að viðurkenna það fullkomlega að ég hélt að það hefði verið svoleiðis. En ég mun kynna mér þetta verkefni, hvað stendur eftir, og ég mun reyna að koma að því í seinni ræðum mínum hér í dag.