138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það við hæstv. ráðherra að það var allt inni í upphafinu. Því var bara frestað í ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar á síðasta ári og það á eftir að klára þann kafla og það er búið að taka peninginn út úr verkefninu. Þannig stendur málið.

Mig langar líka að beina spurningu til hæstv. ráðherra. Hann kom inn á það í ræðu sinni hér áðan að Dýrafjarðargöngin hefðu ekki verið slegin út af borðinu heldur kæmu þau inn seinna og þá spurning hvenær. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki komið nóg af því að fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum? Á vegáætlun 2009 og 2010 var gert ráð fyrir 1.100 milljónum, nú er þar ekkert.

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. ráðherra um vegarkafla á sunnanverðum Vestfjörðum sem við þekkjum öll. Telur hæstv. ráðherra mögulegt að Alþingi setji lög sem mundu ákveða um lagningu vegarins, bara breyta lögum og setja lög á Alþingi sem segðu til um það hvernig vegurinn yrði lagður því að ekki þarf að rekja hörmungarsögu þess verkefnis í áraraðir.