138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri fastlega ráð fyrir að taka til máls í seinni umferð þessarar umræðu og fara þá í ræðu. Ég vil hins vegar fá að koma í andsvar með nokkrar spurningar og ábendingar til hæstv. ráðherra. Það er varðandi þau áhugaverðu markmið sem hér eru sett fram. Ég sakna þess raunar að markmiðin séu of opin, að þau séu ekki töluleg og sett þannig fram að hægt sé að fara í gegnum þau þegar þessi áætlun rennur út og skoða hvað hefur verið gert.

Hér er t.d. nefnt varðandi markmiðin um umhverfislega sjálfbærar samgöngur að unnið verði að könnun leiða og gerð markvissra áætlana. Ég vil því spyrja hvort ekki væri hægt að setja frekari töluleg markmið og hvort ráðherrann gæti tekið undir það að það væri eitt af því sem samgöngunefnd ætti að íhuga, þegar hún fer í að vinna þessa áætlun, að setja skýrari markmið sem Alþingi ætti þá auðveldara með að fylgja eftir gagnvart samgönguráðuneytinu.