138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég heyrði ekki að hún bæri fram einhverjar spurningar en ábendingar voru það og ég þakka fyrir þær og vil taka þær til greina.

Töluleg markmið, þau sem hér er verið að tala um, sem boðuð eru á langtímaáætluninni, kunna að koma fram þar. Það skal líka viðurkennast að sumt af þessu er ekki gott að setja töluleg markmið á. Markmiðin eru sett fram og við þurfum að komast í þau og svo er kannski ekkert voðalega mikill kostnaður fyrir ríkissjóð gagnvart sumum af þeim en getur verið fyrir annað.

Hv. þingmaður talar um að setja fram skýrari markmið en hér er gert til þess að fylgjast betur með þeim — ég verð, virðulegi forseti, að segja að mér finnst þessi áætlun, eins og aðrar áætlanir sem hafa verið lagðar fram um samgönguáætlun, mjög skýr. Þó að þetta séu flókin plögg er það mjög skýrt hvernig þetta er sett hér fram og auðlesið til þess að fylgja þessu eftir og mikið af upplýsingum. En ég vil líka benda þingheimi á það, virðulegi forseti, að ef menn vilja fara aftur í tímann varðandi það hvað hefur gerst og hvað hefur klárast þá liggur hér frammi skýrsla samgönguráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar (Forseti hringir.) undanfarið og ekki er langt síðan henni var dreift hér á hinu háa Alþingi.